Nauðsynlegt að vera þolinmóður

Norðurljósin dönsuðu yfir Tjörninni í Reykjavík í kvöld. Ljósmyndari mbl.is …
Norðurljósin dönsuðu yfir Tjörninni í Reykjavík í kvöld. Ljósmyndari mbl.is var á staðnum, en mikill fjöldi íbúa kíkti út til að berja dýrðina augum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem eru þolinmóðir fengu eitthvað fyrir sinn snúð í kvöld, en norðurljósasýngin hófst ekki fyrr en klukkan ellefu í kvöld. Hún var þó ekki jafn öflug og á mánudaginn eða þriðjudaginn, en flott engu að síður. Þetta segir Sævar Helgi Bragason stjörnufræðiáhugamaður þegar mbl.is náði tali af honum rétt fyrir miðnætti.

„Þau koma í bylgjum eins og alltaf og til að njóta þeirra þarf maður að vera þolinmóður,“ segir Sævar Helgi. Sjálfur sagðist hann vera búinn að sjá nóg í kvöld, enda hafi hann einnig séð talsvert af ljósunum undanfarna daga og því stefni hann heim á leið. 

Áfram er góð norðurljósaspá næstu daga, en skýjahula gæti þó eitthvað truflað sýn á himininn. Sævar Helgi segist því frekar mæla með því að áhugasamir, sem vilji sannarlega sjá norðurljósin dansa, að þeir bíði aðeins lengur í kvöld frekar en að reyna aftur á morgun eða á föstudaginn.

Bendir hann á að í gær hafi til að mynda besta sýningin verið í kringum þrjú leytið um nóttina. „Stundum er maður heppinn að vera úti þegar flottasta showið kemur,“ segir Sævar Helgi og bætir við að hin mikla rafsegulvirkni verði áfram í gangi á morgun og á föstudaginn.

Sævar Helgi segist hafa verið sjálfur við Perluna þar sem um 100 manns voru upp í Perlunni sjálfri auk fjölmennis í kring. Sagði hann hugmynd borgarinnar að slökkva götuljós hafa verið frábæra og að borgin hafi verið virkilega falleg svona myrkvuð. „Það er gaman að sjá hana svona aðeins öðruvísi en venjulega,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert