„Uppskrift að dauðaslysi“

Slökkvilið þrífur vettvanginn eftir gassprenginguna. Hluta Bíldshöfða var lokað um …
Slökkvilið þrífur vettvanginn eftir gassprenginguna. Hluta Bíldshöfða var lokað um stundarsakir og þjónusta á bensínstöðinni lá niðri. mbl.is/RAX

Mikil mildi þykir að ekki hafi orðið alvarlegt slys þegar gaskútur sprakk í húsbíl á bensínstöð N1 í Ártúnsbrekku um tvöleytið í gær. Dælubílar frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu hreinsuðu vettvanginn og var stöðinni lokað í rúman klukkutíma eftir slysið.

Orsök slyssins má rekja til þess að spænskur ferðamaður dældi metangasi á própangaskút húsbílsins. Própangaskútar eru hannaðir til að þola þrýsting upp á um 20-30 bör en metangaskútar þurfa að þola tífalt meiri þrýsting. Kúturinn sprakk og sendi málmtætlur í allar áttir. Að sögn sjónarvottar heyrðist hávær hvellur og allt í bílnum „fór á hvolf og út um allt“. Upp gaus megn metanlykt og var svæðinu strax lokað.

Engin eldhætta

Þrír slösuðust minniháttar við sprenginguna samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Sá sem dældi gasinu fékk skurð á kálfa og sagði Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, í samtalið við Morgunblaðið að ótrúlegt væri að viðkomandi hefði sloppið jafn vel.

„Þetta var uppskrift að dauðaslysi og ótrúlegt að hann hafi ekki farið verr út úr þessu,“ sagði Eggert.

Dælustöðin er rækilega merkt metangasi en Eggert segir að hugsanlega þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til að hindra að þetta komi aftur fyrir, til dæmis með því að vara sérstaklega við því að metanið sé ætlað bílum en ekki gaskútum. Engin eldhætta var, þar sem sprengingin varð einungis vegna þrýstingsáhrifa.

„Í sjálfu sér er aldrei hætta með stöðina sjálfa, hún getur ekki sprungið. Um leið og kúturinn springur slokknar á dælunni,“ sagði Eggert enn fremur.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun ferðamaðurinn hafa borið fyrir sig að hann hafi gert þetta áður heima á Spáni án vandkvæða en líklega hefur verið um aðrar gastegundir að ræða.

Einsdæmi á Íslandi

Vinnueftirlitið mætti á vettvang til að rannsaka aðdraganda slyssins. Helsta rannsóknarefnið er hvernig viðkomandi gat tengt stútinn á metandælunni við kútinn og líklega hefur þurft sérstakt millistykki til. Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, leggur áherslu á að ekkert sé að óttast fyrri metanbílaeigendur. „Þetta tilfelli er einsdæmi á Íslandi. Það er engin hætta þegar verið er að dæla á venjulega metanbíla.“

Málið er nú í höndum lögreglunnar og Vinnueftirlitsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert