Ábati NPA-notenda meiri

Ábati þeirra sem nota NPA-þjónustu er meiri en kostnaður.
Ábati þeirra sem nota NPA-þjónustu er meiri en kostnaður. mbl.is/Árni Sæberg

Skýr vísbending er um að ábati þeirra sem njóta NPA-þjónustu, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, er meiri en kostnaður samfélagsins vegna þjónustunnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt á matsrannsókn á samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð NPA, sem gerð var fyrir velferðar- og iðnaðarráðuneytið. Hér er hægt að skoða rannsóknina í heild. 

Í rannsókninni var m.a. reynsla notenda, aðstandenda og starfsfólks NPA-þjónustunnar skoðuð. Þar kom m.a. fram að notendur töldu NPA vera bætta þjónustu sem stuðli að sjálfstæðara lífi.

„Bent var á að það þyrfti aukið fjármagn til þjónustunnar, að bæta þyrfti viðmið við mat á þjónustuþörf notenda, að starfsmannahald og verkstjórn útheimti mikla vinnu af notendum, að erfiðlega hafi gengið að ráða aðstoðarfólk, að það þyrfti að lögfesta NPA og styrkja stöðu NPA-miðstöðvarinnar,“ segir í rannsókninni. Í viðtölum við notendur lýsa þeir m.a. óöryggi vegna framtíðar sinnar „þar sem þjónustan hafði ekki verið lögfest.“ Þykir þeim brýnt að svo verði. 

Meirihluti þeirra sem svöruðu könnuninni meðal NPA-notenda var karlar (60%) og voru nærri tveir af hverjum þremur búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Fjórðungur NPA-notenda var undir 18 ára aldri. Hreyfihömlun var algengasta tegund skerðingar meðal NPA-notenda en þá skerðingu voru 82% notenda með. Að meðaltali voru notendur með 284 tíma í NPA á mánuði. NPA-notendur á höfuðborgarsvæðinu voru að jafnaði með fleiri tíma í NPA en NPA-notendur á landsbyggðinni.

NPA-notendur töldu mikilvægt að hafa stjórn á því hver veitir þeim aðstoð í daglegu lífi. Þeir vildu geta ráðið aðstoðarfólk af sama kyni og á svipuðum aldri og þeir sjálfir. 

„Aðstandendum NPA-notenda fannst þjónustan almennt henta fjölskyldunni vel og var mikill meirihluti þeirrar skoðunar að þjónustan styddi við samverustundir fjölskyldunnar.“  Meirihluti aðstandenda þótti nærvera aðstoðarfólks góð. 

Kostnaður fram úr áætlun

Starfsfólk sveitarfélaga var almennt jákvætt í garð NPA samstarfsverkefnisins og töldu þjónustuna hafa reynst notendum vel. Þó kom fram að starfsfólk sveitarfélaga taldi að huga þyrfti að áframhaldandi uppbyggingu og þróun annarra þjónustuúrræða, enda þótti ljóst að NPA nýttist ekki öllum.

Starfsfólk sveitarfélaga lýsti því að síðastliðin ár hafi kostnaður við þjónustu sveitarfélaganna farið fram úr áætlunum. Fjárhagserfiðleika mátti, að þeirra mati, einkum rekja til fjölgunar í hópi notenda í kjölfar yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga og ónógra framlaga frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Að sögn viðmælenda er lítill hvati fyrir þjónustusvæði að fjölga NPA-samningum. Aukist fjármagn frá ríki ekki, sé fyrirséð að tímafjöldi verði minni í þeim samningum sem gerðir verði í framtíðinni. Meðal starfsfólks sveitarfélaga ríkti mikil óvissa þar sem lítið er vitað um framtíð verkefnisins og hvort sveitarfélögum verði tryggt fjármagn til NPA.

Rannsókninni var ætlað að varpa ljósi á hvernig tekist hefur að ná markmiðum þjónustunnar og bera NPA saman við önnur þjónustuúrræði sem í boði eru fyrir fatlað fólk. Lögð var áhersla á að bera saman aðstæður og viðhorf NPA-notenda og þeirra sem nýta önnur úrræði og leggja mat á hvort NPA stuðli að sjálfstæðu lífi og almennri þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Rannsókninni var einnig ætlað að meta réttindi og skyldur aðstoðarfólks sem starfar samkvæmt NPA-samningum og kanna upplifun og reynslu þeirra af starfinu. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sá um kostnaðar- og ábatagreiningu vegna þjónustunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert