Bleika slaufan afhjúpuð

Eliza Reid forsetafrú afhenti fimm konum sem greinst hafa með …
Eliza Reid forsetafrú afhenti fimm konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein fyrstu bleiku slaufurnar. Á myndinni eru konurnar fimm í miðjunni og Eliza Reid ásamt Sigrúnu Gunnarsdóttir til hægri. Til vinstri eru Lovísa og Unnur Eir hönnuðir Bleiku slaufunnar 2016. Ljósmynd/Bleika Slaufan

Eliza Reid forsetafrú afhjúpaði Bleiku slaufuna en bleikur október hófst í dag. Form slaufunnar, sem hönnuð af Unni Eir og Lovísu gullsmiðum, táknar stuðningsnetið sem mikilvægast er þeim konum sem greinast með krabbamein - fjölskylduna og samfélagið. Athöfnin fór fram í Kringlunni í dag.

Bleika slaufan 2016
Bleika slaufan 2016 Mynd/Bleika slaufan

Bleika slaufan er árlegt átak Krabbameinsfélagsins sem í ár ber yfirskriftina „Fyrir mömmu.“ Sjónum er beint að brjóstakrabbameini, algengasta krabbamein íslenskra kvenna. Hér á landi greinist kona með brjóstakrabbamein á um 40 klukkustunda fresti árið um kring. Um 3.000 konur eru á lífi í dag sem greinst hafa með brjóstakrabbamein en enn látast um 40 konur úr sjúkdómnum á hverju ári.

Frétt mbl.is: Einföld skoðun bjargar lífi

Skipuleg leit er öflugasta vopnið í baráttunni og talið er að slík leit geti lækkað dánartíðni um allt að 40%. Brýn þörf er á að endurnýja tækjabúnað til skipulegrar leitar og því verður söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár varið til endurnýjunar á slíkum tækjabúnaði.

Eliza Reid forsetafrú spjallar við börn sem mála „mynd fyrir …
Eliza Reid forsetafrú spjallar við börn sem mála „mynd fyrir mömmu“ með Tolla í dag. Ljósmynd/Bleika slaufan

Bleika boðið verður haldið á 1. hæð Kringlunnar í kvöld, á góðgerðadeginum „Af öllu hjarta.“ Klukkan 17 munu Lalli töframaður og Ævar vísindamaður mæta á svæðið og klukkan 20 stíga fjölmargir listamenn á stokk, meðal annars Ari Eldjárn, Kristjana Stefáns og krakkar úr Bláa hnettinum, Gréta Salome og Glowie.

Opið verður í Kringlunni til klukkan 22 og gefa verslanir þar 5% af allri veltu dagsins til átaksins. Bleika slaufan verður einnig til sölu í verslunum Kringlunnar sem auk þess bjóða margvíslega afslætti til viðskiptavina.

Bleika slaufan kostar 2.000 krónur og verður hún seld á fjölda sölustaða án nokkurrar álagningar. Sölustaði Bleiku slaufunnar má finna á vefsíðu átaksins, www.bleikaslaufan.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert