„Ég kyssti þessa elsku“

Vinkonurnar Eva Mjöll Ingólfsdóttir (standandi) og Gunnbjörg (sitjandi) umvafðar tónlistarmönnum …
Vinkonurnar Eva Mjöll Ingólfsdóttir (standandi) og Gunnbjörg (sitjandi) umvafðar tónlistarmönnum í ferð sinni nýlega til New York.

„Ég hugsaði ekkert um það þá hvað þetta væri stór stund, ég var svo ung að ég gerði mér ekki grein fyrir því. Ég man að ég nennti varla að mæta í þessa móttöku.“ Svo segir Gunnbjörg Óladóttir þegar hún rifjar upp fund sinn með Leonard Cohen fyrir löngu.

Félagi minn fullyrðir að þetta sé besti ábreiðusöngur sem til er af laginu Hallelujah eftir Leonard Cohen. Ég flissa alltaf að yfirlýstur guðleysinginn láti svona og ég er viss um að hann er að gera grín að mér. En hann heldur minningunni á lofti, því hann er enn að gefa fólki þessa plötu í tækifærisgjafir,“ segir Gunnbjörg um plötuna Þú ert mér nær, sem kom út fyrir þrjátíu árum, en þar syngur hún öll lögin tíu sem eru á plötunni.

„Þessi plata var gefin út af Samhjálp, en foreldrar mínir Ásta Jónsdóttir og Óli Ágústar, sem er áttræður í dag, ráku Samhjálp í tuttugu og tvö ár, frá 1977 til 1999. Til að fjármagna starfið gaf Samhjálp annað hvert ár út plötur og bækur, með kristilegu ívafi. Þessi plata seldist í bílförmum, hún seldist meira en Bubbi það árið, en þó fór hann yfir gullplötumarkið í sölutölum, með sín 5.000 eintök. Samhjálparplöturnar seldust reyndar alltaf vel og það var mikið söluátak í gangi og keyrt um allt land, svo þessi plata mín er eflaust til á mörgum sveitabæjum,“ segir Gunnbjörg og bætir við að langt sé liðið síðan hún kvaddi þennan heim Samhjálpar og að öll fjölskyldan sé nú gengin úr Fíladelfíu, nema hugsanlega tveir elstu bræðurnir sem létu sig þessi mál litlu varða.

„Foreldrar mínir mega eiga það að þau rifu upp starfið í Samhjálp. Það var boðið upp á súpu fyrir heimilislausa, og svo sá Samhjálp líka um meðferðarstöðina í Hlaðgerðarkoti, stoðbýli fyrir þá sem vildu spreyta sig í lífinu og samtöl við þá sem gengu lengst og náðu bata. Þetta var mikið batterí sem óx í höndum foreldra minna, og var hugsjónastarf hjá þeim. Það var einföld hugsjón, sem meðferðarkerfin hér heima misskildu, en hugsjónin snerist um að veita húsaskjól og fæða og klæða þá sem bera ekki hönd fyrir höfuð sér. Við vorum á kafi í starfinu í Samhjálp, foreldrar mínir og við fjögur yngstu börnin, og lærðum margt sem ég vona að ég gleymi aldrei. Við höfum öll komið við í tónlist með einum eða öðrum hætti, bræður mínir voru í lúðrasveit, einn spilaði á bassa, annar á gítar og ég spilaði á gítar og söng. Við vorum heilmikið að spila á þessum árum, eins og gert er í þessum kristilegu hreyfingum, það gengur voða mikið út á söng.“

Bjólan og fleiri góðir með

Gunnbjörg var ekki nema 21 árs þegar hún söng inn á plötuna, þá nýbyrjuð í guðfræði við Háskóla Íslands.

„Ég var nýkomin heim frá Ameríku, hafði verið þar í eitt ár sem barnapía, tók mér smá frí eftir menntaskóla. Það var gaman að vinna að þessari einu sólóplötu minni og þeir sem spiluðu og unnu að útsetningum voru heldur betur flottir náungar til að hafa með sér á plötu, meðal annarra Björn Thoroddsen, Þórir Baldursson, Sigurður Bjóla og Skúli Sverris. Gerður var sjónvarpsþáttur til að kynna plötuna þar sem ég söng í sjónvarpssal, þetta voru þættir sem voru kallaðir Rokkarnir geta ekki þagnað, ef ég man rétt, og Dóra Takefusa tók við mig viðtal. Hrafn Gunnlaugsson var dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar á þessum tíma og í framhaldi af þessum þætti hvatti hann mig til að sækja um vinnu sem aðstoðardagskrárgerðarmaður hjá sjónvarpinu. Ég sló til og starfaði sem svokölluð skrifta um stund. Það var gaman að sjá inn í sjónvarpsheiminn og ég kynntist mörgu áhugaverðu. En ég hafði ekki áhuga á að staldra lengi við, enda vildi ég ólm komast aftur í háskólann og lesa heimspeki sem ögraði fallega allri minni tilveru á þeim tíma.“

Heimsins fyrsta ábreiða

Leonard Cohen kom sjálfur til Íslands ekki svo löngu eftir að platan kom út, á Listahátíð 1988.

„Mér var boðið í móttöku í Höfða þar sem ég átti að afhenda honum plötuna mína, af því að hún innihélt heimsins fyrstu ábreiðu af lagi hans Hallelujah. Það er svolítið skondið að ég syng íslenskan kristilegan texta við lagið, um Davíð og Batsebu, sem pabbi samdi. En við völdum lag Cohens af því það er andlegur þungi í því en Cohen var alls ekki með það í huga, því hann er í grunninn Gyðingur og er raunar virkur Búddisti í dag. En þetta var skemmtileg ögrun og ágætur fundur tveggja heima.“

Mjúka kinnin er ekki gleymd

Gunnbjörg segir að það hafi verið ljúf stund að hitta Cohen.

„Ég kyssti hann, þessa elsku. Við vorum beðin um að kyssast og gerðum eins og okkur var sagt. Þessi mjúka kinn er auðvitað ekki gleymd. Cohen hefur alla tíð verið mikill kvennamaður en mér sýndi hann ekkert nema herramennsku. Frá honum stafaði raunar einstakri hlýju. Ég hugsaði ekkert um það þá hvað þetta væri stór stund, ég var svo ung að ég gerði mér ekki grein fyrir því. Ég man að ég nennti varla að mæta í þessa móttöku. Nú þremur áratugum síðar átta ég mig á hvað þetta voru mikil forréttindi,“ segir Gunnbjörg og bætir við að hún hafi í boðinu kynnst lítillega þeim sem voru í hljómsveit Cohens. „Ég man sérstaklega eftir strák frá Texas sem spilaði á trompet í bandinu hans og hafði ferðast með honum um allan heim. Hann sagði að það væru ekki til stjörnustælar í Cohen, hann væri svo mikill húmanisti. Ég spjallaði líka við gítarleikara frá Grikklandi sem var að ærast úr heimþrá, hann var ánægður með að vinna með Cohen því hann væri einstaklega hlý manneskja. Ég hef alla tíð síðan fylgst með Cohen, hann er djúpþenkjandi og hefur verið hræðilega þjakaður af þunglyndi og varpað ljósi á þann arma sjúkdóm með heiðarlegri játningu. Mér finnst eftirminnileg orð hans í viðtali þar sem hann sagði að manneskjunni gengi illa að kalla fram fólkið í mannkynssögunni sem raunverulega ætti að vera þar. Þórir Baldurs hélt því fram að hann væri af sumum talinn meiri Dylan! En það er held ég ekki hægt. Þeir hafa þó báðir þetta einstaka mark að textarnir þeirra eru vart af þessum heimi.“

Gunnbjörg segir það hafa verið ógleymanlega stund þegar hún hitti …
Gunnbjörg segir það hafa verið ógleymanlega stund þegar hún hitti Leonard Cohen og gaf honum plötuna sína og fékk að kyssa goðið. Hann sýndi henni mikla herramensku. Ljósmynd/Björgvin Pálsson
Gunnbjörg segir það hafa verið ógleymanlega stund þegar hún hitti …
Gunnbjörg segir það hafa verið ógleymanlega stund þegar hún hitti Leonard Cohen og gaf honum plötuna sína og fékk að kyssa goðið. Hann sýndi henni mikla herramensku. Ljósmynd/Björgvin Pálsson
Gunnbjörg segir það hafa verið ógleymanlega stund þegar hún hitti …
Gunnbjörg segir það hafa verið ógleymanlega stund þegar hún hitti Leonard Cohen og gaf honum plötuna sína og fékk að kyssa goðið. Hann sýndi henni mikla herramensku. Ljósmynd/Björgvin Pálsson
Gunnbjörg Óladóttir
Gunnbjörg Óladóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert