Leggja niður ferðir til Akureyrar

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Grayline.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Grayline. mbl.is/Golli

Síðasta beina áætlunarferðin á vegum Gray Line Iceland milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar verður farin föstudaginn 30. september. Ekki verður boðið upp á ferðirnar í vetur. Næstu mánuði verður metið hvort grundvöllur teljist fyrir áframhaldandi ferðum næsta sumar. Þetta kom fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

„Málið er það að það tekur langan tíma að byggja upp svona leið og kostar mikinn pening. Þetta var ákveðið tilraunarverkefni og við áttum von á því að það kæmu fleiri farþegar. Hvort að þetta verði aftur tekið upp næsta sumar kemur í ljós,“ sagði Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line Iceland, í samtali við mbl.is. 

Hann bendir á ein rútuferð á dag frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar geti skilað yfir 400 ferðamönnum á viku beint út á land. Á sama tíma sé ríkið að leggja 300 milljónir króna á ári í flugþróunarsjóð til að styrkja beint flug erlendis frá til Akureyrar og Egilsstaða. Ferðamátinn henti fólki norðan ákaflega vel til að komast í flug og hægt að komast í rútuna á nokkrum stöðum á leiðinni, til að mynda í Skagafirði, Blönduósi, Staðarskála og Borgarnesi.

 „Það þarf að horfa heilstætt á málið, það eru fleiri möguleikar en að fljúga. Tvær flugferðir í viku erlendis frá skila færri farþegum til Akureyrar en ein rúta sem fer á milli daglega frá Keflavíkurflugvelli. Gallinn við rútur er að ferðin tekur lengri tíma en stóri kosturinn er að hægt er að stoppa á mörgum stöðum á leiðinni.“

Þá segir Þórir að hluti vandans felist í þekkingarleysi á áfangastöðum, erlendir heildsalar hafi komið af fjöllum þegar lagt hafi verið til að kynna Akureyri sem vænlegan áfangastað. Meiri fjármagn vanti í að markaðssetningu því flugvöllur gerir ekki neitt einn og sér ef fólk þekkir til staðarins. 

Í samkeppni við niðurgreiddar almenningssamgöngur

Strætó bs. rekur áætlunarferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar. Þrátt fyrir að Gray Line hafi verið samkeppnisfærir í verðlagningu hefur vera Strætó á markaðinum vissulega áhrif á rekstrarumhverfið. 

„Okkar skoðun er sú að niðurgreiddar almenningssamgöngur eigi ekki heima á samkeppnismarkaði. Við vorum vel samkeppnisfær við Strætó bs. í fargjaldi, þrátt fyrir að þurfa að leggja virðisaukaskatt á fargjöldin sem Strætó gerir ekki. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert