Barnaverndarstofa rannsakar mál móður

Dæmt var í málinu á grundvelil framburðar barnanna. Myndin er …
Dæmt var í málinu á grundvelil framburðar barnanna. Myndin er sviðsett. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barnaverndarstofa hefur ákveðið að rannsaka málsmeðferð á máli fimm barna móður sem hefur verið dæmt í 18 mánaða fangelsi fyrir ofbeldi gagnvart börnunum sínum.

Frétt mbl.is: Móðir beitti fimm börn sín ofbeldi 

 „Þetta mál er gríðarlega mikið að vöxtum og spannar mörg ár. Ofbeldið sem þarna hefur átt sér stað er mjög gróft og málið er allt mjög óvenjulegt og sérstakt. Þar af leiðandi höfum við tekið þá afstöðu hjá Barnaverndarstofu að kanna málið með vísan til okkar eftirlitshlutverks í lögum,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

„Við getum tekið mál til rannsóknar að eigin frumkvæði. Við höfum verið að bíða eftir þessum dómi til þess að taka ákvörðun um það.“

Meðal annars verður rannsakað hvers vegna málsmeðferðin tók eins langan tíma og raun ber vitni.

Í dómnum kom fram að málefni barnanna hefði verið í vinnslu með hléum frá árinu 2005. Á þeim tíma hafi borist tugir tilkynninga um ofbeldi móður í garð barnanna auk heimilisofbeldis sem börnin hafi orðið vitni að. Börnin hafi staðfest líkamlegt ofbeldi af hálfu ákærðu árið 2010.

Faðir barnanna, sem er skilinn við konuna, talaði um að það væri kraftaverk að ekkert barnanna hefði dáið í vegna ofbeldis konunnar.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu

Engin læknisfræðileg sönnunargögn

„Mér finnst ástæða til að árétta að við megum aldrei hrapa að neinni niðurstöðu í svona málum. Þarna er dæmt vegna líkamlegs ofbeldis á þessum börnum. Engu að síður er ekki að finna í dómnum sjálfum tilvísun til þess að læknisfræðileg sönnunargögn hafi skipt máli við úrlausnina,“ greinir Bragi frá. „Málið er dæmt á grundvelli framburðar barnanna. Það gefur okkur vísbendingar um að barnaverndin stendur oft frammi fyrir erfiðleikum er snertir sönnunarbyrði, sérstaklega ef það eru ekki áþreifanleg sönnunargögn til staðar.“

Mjög flókin mál

Bragi segir að það geti oft reynst erfitt að taka mjög íþyngjandi ákvarðanir eins og að fjarlægja börn af heimili og svipta forsjá á grundvelli framburðar, sérstaklega ef hann er á reiki og að erfitt sé að skjóta undir hann styrkum stoðum með læknisfræðilegum gögnum.

„Svona mál eru mjög flókin. Við viljum kanna hvort það er tilefni til að draga lærdóm af þessu. Það er alls ekki hægt að útiloka að þarna hafi ekki verið gripið nægjanlega snemma inn í þróun mála. En það er alls ekki hægt að slá því föstu heldur,“ segi  hann og nefnir að farið sé í rannsóknina með opnum hug. „Við erum ekki að reyna að finna sökudólga heldur læra af þessu og sjá hvort við getum bætt okkar málsmeðferð.“

Húsnæði Barnaverndarstofu.
Húsnæði Barnaverndarstofu. mbl.is/Golli

Óvenju þungur dómur

Bragi segir 18 mánaða óskilorðsbundna dóminn sem móðirin fékk varla eiga sér hliðstæðu. Mjög óvenjulegt sé að svona þungur dómur falli í máli sem þessu. „Það er óvenjulegt að þessi mál verði að sakamálum. Þetta er refsidómur, ekki forsjársviptingardómur. Þarna er verið að dæma móðurina til refsingar vegna þess að hún hefur beitt ofbeldi,“ segir hann.

Verjandi konunnar sagði í samtali við mbl.is að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Barnahús byrjaði á síðasta ári að taka rannsóknarviðtöl við börn …
Barnahús byrjaði á síðasta ári að taka rannsóknarviðtöl við börn sem grunur leikur á að hafi sætt líkamlegu ofbeldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verklagsregla að láta fara fram úttekt

Spurður hversu oft Barnaverndarstofa ákveði að rannsaka málsmeðferðir segir Bragi það reglu að ef mjög alvarleg barnaverndarmál komi upp sem varði mjög ríka barnaverndarhagsmuni þá sé það verklagsregla að láta fara fram úttekt. Það eigi alltaf við þegar barn deyr vegna ofbeldis, sem komi af og til fyrir, og líka þegar um sé að ræða önnur óvenjuleg og flókin mál.

„Þetta hefur reynst okkur mjög vel. Í hvert einasta skipti sem Barnaverndarstofa hefur gert þetta hefur það leitt til nýmæla er varðar verklagsreglur og vinnubrögð. Ég get fullyrt að þetta hafi leitt til aukins öryggis við vinnslu mála og verið barnaverndarstarfsmönnum til hagræðis við vinnslu slíkra mála í framtíðinni. Það sem mestu máli skiptir er að þetta eykur öryggi barnanna,“ segir hann.

Mikil fjölgun ofbeldismála

Að sögn Braga hefur málum varðandi ofbeldi gagnvart börnum fjölgað mikið á síðustu árum. Breyting varð í málaflokknum eftir að Barnahús Barnaverndarstofu tók við honum í byrjun síðasta árs þegar Barnahúsið fór að taka rannsóknarviðtöl við börn sem grunur leikur á að hafi sætt líkamlegu ofbeldi. Fram að því hafi Barnahúsið fyrst og fremst rannsakað kynferðisbrot gegn börnum.

„Barnahúsið var stækkað, við fengum fleira fagfólk og fórum að taka þessi mál inn. Það virðist hafa leitt til fjölgunar á málum sem eru í rannsókn hjá lögreglu- og barnaverndarnefndum,“ segir Bragi.

Hann segir framburð barna skipta miklu máli, sérstaklega þegar sönnunarbyrðin er erfið. Því sé mikilvægt að öll umgjörð og allur umbúnaður sé með faglegum hætti eins og boðið er upp á í Barnahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert