Segist munu óska skýringa

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir sorglegt að sjá fréttir af fötluðu fólki sem fengi ekki notendastýrða persónulega aðstoð, þegar þingið hefði þegar ákveðið að setja lög um innleiðingu aðstoðarinnar.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag sagði hann Eygló Harðardóttur, félagsmálaráðherra, hafa fengið tveggja ára frest árið 2014 til að innleiða aðstoðina, og furðaði sig á því að það hefði ekki enn verið gert, nú þegar farið væri að líða að lokum kjörtímabilsins.

Vandinn eigi rót sína í manneklu

Eygló sagði innleiðinguna hafa tafist líkt og öllum ætti að vera kunnugt. Hvatti hún þá Guðmund til að eiga samtal við flokksmenn sína í stærstu sveitarstjórnum landsins, þar sem þær hefðu meðal annars tafið innleiðinguna.

Guðmundur svaraði því og sagði að skýrsla væri komin út um mjög góðan árangur verkefnis þar sem hagkvæmni og nýtni aðstoðarinnar hefði verið rannsökuð, og að ráðherrann hefði að því er virtist ekki kynnt sér efni hennar.

Eygló sagðist þá myndu óska skýringa á því að þingmaður hefði fengið upplýsingar sem hún hefði sjálf ekki fengið að líta. Þá sagði hún vandann eiga rót sína í manneklu, því fjármuni til aðstoðarinnar hefði hún vissulega tryggt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert