Braut gegn 14 ára barni

mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot. Hann var sakfelldur fyrir að hafa átt í samskiptum á Skype við 14 ára stúlku með það í huga að stunda með henni kynlíf, og fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við stúlkuna þrisvar sinnum vitandi um aldur barnsins.

Maðurinn, sem var 28 ára þegar brotin voru framin, var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 800.000 krónur í miskabætur, en samkvæmt vottorði sálfræðings hafa brotin valdið stúlkunni verulegri sálrænni vanlíðan, grafið undan sjálfsmynd hennar og sjálfstrausti. Þá glími hún við alvarlegan kvíða og eigi hún töluvert langt í land með að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd.

Upphaf málsins má rekja til þess að stúlkan leitaði til félagsráðgjafa hjá barnaverndarnefnd 12. júní 2013 og greindi frá vanlíðan vegna samskipta sem hún hefði átt á spjallsíðu.

Umtalsverður aldursmunur

Ríkissaksóknari ákærði manninn í nóvember 2015 fyrir að hafa á tímabilinu maí til september 2013 átt við stúlkuna, sem þá var 14 ára gömul, samskipti í gegnum samskiptaforritið Skype og í síma í því skyni að hafa við hana samræði, en jafnframt á sama tímabili, í bifreiðum hans og á fleiri stöðum, haft samræði og önnur kynferðismök við hana í að minnsta kosti fimm skipti.

Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa haft kynmök við stúlkuna í fimm skipti. Héraðsdómur sýknaði hans hins vegar af því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við stúlkuna í tvö skipti, enda hafi ekki verið talið að manninum hefði í þau skipti verið kunnugt um aldur stúlkunnar. 

Héraðsdómur segir að aldursmunur á manninum og stúlkunni hafi verið umtalsverður og breyti engu þótt stúlkan hafi í einhverjum tilvika átt frumkvæði að samskiptum þeirra á Skype.

Manninum ekki kennt um töf á meðferð málsins

Í dómnum segir enn fremur, að nokkur óútskýrð töf hafi orðið á rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn, en atburðirnir sem ákært var út af áttu sér stað frá lokum maí 2013 til 22. ágúst sama ár. Skýrsla var tekin af stúlkunni í Barnahúsi 13. nóvember 2013. Maðurinn var þó ekki yfirheyrður hjá lögreglu fyrr en í byrjun september 2014. Ákæra í málinu var síðan gefin út 20. maí 2015.

„Verður ákærða ekki kennt um þessa töf á meðferð málsins. Þykir fært að ákveða að fullnustu refsingar ákærða skuli frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð,“ að því er segir í dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert