Breytingar á stjórnsýslu Akureyrar

Akureyri.
Akureyri. mbl/ Skapti Hallgrímsson

Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt tillögur stjórnsýslunefndar bæjarráðs um umbætur á stjórnsýslu bæjarins. Er markmið umbótanna „að laga stjórnsýslu bæjarins að breyttum tímum og ná fram aukinni skilvirkni til hagsbóta fyrir bæjarbúa,“ að því er segir í tilkynningu frá bænum.

Stærsta breytingin verður sú að stjórnsýslueiningum bæjarins fækkar úr 14 í 10 auk þess sem nefndir verða sameinaðar. Hafa stjórnsýsluumbæturnar verið kynntar stjórnendum Akureyrarbæjar og verða í framhaldinu kynntar öðru starfsfólki bæjarins og verða teknar til umfjöllunar á bæjarstjórnarfundi þann 4. október.

Á að efla þjónustu við bæjarbúa

Þessi einföldun stjórnsýslunnar á að gegna þeim tilgangi að efla þjónustu við bæjarbúa, koma til móts við kröfur þeirra um betri þjónustu í stjórnkerfinu, rafræna stjórnsýslu, betri mannauðsstjórnun og betri rekstur.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar.

„Á þeim áratug sem liðinn er frá því að núverandi stjórnskipulagi var komið á hafa orðið miklar breytingar á verkefnum og rekstri bæjarins sem mikilvægt er að bregðast við,“ er meðal annars haft eftir Eiríki Birni Björgvinssyni, bæjarstjóra Akureyrar um breytingarnar. „Að baki þessum umbótum liggur mikil og vönduð vinna og vil ég þakka öllum sem að henni komu fyrir sitt framlag,“ segir Eiríkur jafnframt.

Núverandi stjórnskipulag Akureyrarbæjar er frá árinu 2006 en vinna stjórnsýslunefndar bæjarráðs vegna umbótanna hófst 2015 en tímabært þykir að gera breytingar á stjórnskipulagi bæjarins sem laga það að nýjum tímum. Naut stjórnsýslunefnd aðstoðar ráðgjafarfyrirtækisins Capacent auk þess sem leitað var til nokkurs hóps starfsfólks bæjarins.

Stjórnsýslueiningum fækkar

Með stjórnsýsluumbótunum verður stjórnsýslueiningum í skipuriti Akureyrarbæjar fækkað úr 14 í 10. Það verður gert með sameiningu deilda með skylda starfsemi í svið með það að markmiði að auka faglegan styrk, yfirsýn og stytta boðleiðir.

Nýtt skipurit mun fela í sér eftirfarandi breytingar:

  • Nafni búsetudeildar verður breytt í búsetusvið.
  • Fjársýslusvið verður til með sameiningu fjármálaþjónustu og hagþjónustu.
  • Nafni fjölskyldudeildar verður breytt í fjölskyldusvið og sérfræðiþjónusta sem verið hefur á fjölskyldudeild verður færð á fræðslusvið sem skólaþjónusta. Verkefni húsnæðisdeildar færast til fjölskyldusviðs.
  • Umhverfis- og mannvirkjasvið verður til með sameiningu framkvæmdadeildar og Fasteigna Akureyrarbæjar.
  • Samfélagssvið verður til með sameiningu samfélags- og mannréttindadeildar og Akureyrarstofu sem verður áfram sérstök deild.
  • Nafni skipulagsdeildar verður breytt í skipulagssvið.
  • Nafni skóladeildar verður breytt í fræðslusvið og sérfræðiþjónusta sem verið hefur á fjölskyldudeild verður færð á fræðslusvið sem skólaþjónusta.
  • Stjórnsýslusvið verður til með sameiningu starfsmannaþjónustu og skrifstofu ráðhúss.
  • Skoðað verður að breyta rekstrarfyrirkomulagi Öldrunarheimila Akureyrar t.d. í sjálfseignarstofnun.
Myndin sýnir tillögu að nýju skipuriti Akureyrarbæjar.
Myndin sýnir tillögu að nýju skipuriti Akureyrarbæjar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert