DR mun selja efni RÚV um allan heim

Frá undirskrift samningsins í DR Byen, höfuðstöfðum DR. Frá vinstri …
Frá undirskrift samningsins í DR Byen, höfuðstöfðum DR. Frá vinstri Anders Kjærsgaard Sørensen, framkvæmdarstjóri DR Sales, Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri RÚV, Jóhannes Birgir Skúlason deildarstjóri alþjóðasölu RÚV og Helene Aurø, sölu- og markaðsstjóri DR Sales.

RÚV hefur undirritað rammasamning við DR Sales sem felur í sér að DR Sales mun sjá um að markaðssetja, selja og fjármagna dagskrárefni í eigu og meðframleiðslu RÚV um allan heim. Í fréttatilkynningu frá RÚV segir að DR hafi verið í fararbroddi í framleiðslu á leiknu sjónvarpsefni á undanförnum árum og er efni danska ríkissjónvarpsins sýnt um allan heim. Með því að efni RÚV fari inn í alþjóðlegt sölu- og dreifikerfi DR Sales opnast möguleikar á því að íslenskt sjónvarpsefni ferðist víðar, skili auknum tekjum og þannig skapist tækifæri fyrir enn frekari aukningu á framboði á íslensku efni hjá RÚV.

Þá kemur fram í tilkynningunni að RÚV hafi að undanförnu aukið áherslu á innlent efni og tvöfaldað framlag sitt til leikins efnis. RÚV mun bjóða völdum verkefnum frá innlendum sjálfstæðum framleiðendum og öðrum sjónvarpsstöðvum hérlendis aðstoð við sölu, kynningu og fjármögnun efnis  í gegnum samninginn.

„DR Sales er reynslumesti, stærsti og sérhæfðasti aðili í sölu á norrænu sjónvarpsefni - vinnur að sölu og dreifingu á sjónvarpsefni um allan heim og hefur náð eftirtektarverðum árangri. Þetta er árangur af áratugalöngu frumkvöðlastarfi við að koma hinum geysivinsælu glæpaseríum NordicNoir og öðrum leiknum þáttaröðum á alþjóðlegan markað og í sýningar á sjónvarpsstöðvum og efnisveitum um heim allan,“ segir í tilkynningunni. 

RÚV bindur miklar vonir við samstarfið og telur að reynsla, þekking og hið góða orðspor DR Sales komi til með að auka hróður íslenskrar dagskrárgerðar og um leið kunni að leiða til verulegrar innspýtingar fyrir framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni. Í ljósi velgengninnar undanfarin ár hefur eftirspurn eftir norrænu sjónvarpsefni aukist til muna og telja forsvarsmenn DR Sales að samstarfið við RÚV komi til með að auka framboð af vönduðu norrænu sjónvarpsefni.

Samkomulagið veitir RÚV tækifæri í að nálgast fjármagn frá öðrum mörkuðum sem verður nýtt til að efla innlenda sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu.

Samstarfið við DR Sales tryggir einnig að íslenskt sjónvarpsefni öðlist áður óþekktan sýnileika á helstu sjónvarpshátíðum og kaupstefnum í heiminum, m.a. á Berlin Film Festival, Sundance Film Festival, NATPE, AFM, MipTV, MipCOM og Scandinavian Screening.

Samstarfið snýr að öllum tegundum sjónvarpsefnis, þar á meðal leiknum þáttum og þáttaröðum, heimildamyndum og -þáttum, barnaefni, menningarefni og afþreyingarefni, bæði hinu frumgerða íslenska sjónvarpsefni og mögulegri endurgerð sem byggir á íslenskri fyrirmynd, svokölluðu „format“. Unnið verður að sölu efnis á öllum stigum framleiðslu, allt frá hugmynd á þróunarstigi til fullframleiddrar þáttaraðar. 

Jóhannes Birgir Skúlason hefur unnið að undirbúningi og mótun samningsins. Nú tekur við framkvæmd á samstarfinu undir hans forystu. Markmiðið er skýrt - að byggja upp greiða leið inn á alþjóðlega markaði fyrir íslenskt sjónvarpsefni.

„Það gleður mig mjög að tilkynna að RÚV hafi valið DR Sales sem einkasamstarfsaðila við útflutning hágæða íslensks dagskrárefnis,“ er haft eftir Anders Kjærsgaard Sørensen, framkvæmdastjóra DR Sales, í tilkynningunni . „Efni RÚV er í mjög háum gæðaflokki og mun falla vel inn í það úrval sem við bjóðum viðskiptavinum okkar, sem gera miklar gæðakröfur. Þetta samstarf sýnir að DR Sales viðheldur sterkri stöðu á sviði norrænna réttinda á leiknu efni, heimildamyndum og „formöt“ og laðar að sér það besta á meðal norrænna framleiðenda og alþjóðlegra kaupenda.“ 

„Ég er himinlifandi yfir að við fáum tækifæri til að gera efni frá Íslandi aðgengilegt á alþjóðlegum mörkuðum. Við getum gert leiknar myndir og þáttaraðir, heimildamyndir, barnaefni og „formöt“ aðgengileg samhliða besta dagskrárefni Norðurlandanna. Fyrsta útgáfan verður í tengslum við MipCOM 2016. Við hlökkum mjög til samstarfsins á komandi árum“, segir Helene Aurø, sölu- og markaðsstjóri DR Sales.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir að um stóran og ánægjulegan áfanga sé að ræða. „Við höfum að undanförnu verið að auka áherslu á innlent efni – og þá sérstaklega leikið efni, en við erum með fjölda afar spennandi verkefna í farvatninu. Í þessum samningi felast gríðarleg tækifæri sem eiga að tryggja okkur aukna dreifingu og tekjur á mörkuðum víða um heim. Vonandi verður þetta til þess að efla dagskrána og innlenda kvikmyndaframleiðslu í heild sinni. Þó við höfum tvöfaldað framlag okkar til framleiðslu leikins efnis, þá dugar það skammt þar sem annað fjármagn hér heima er af skornum skammti. Vonandi verður framlag til sjónvarpsframleiðslu aukið hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands, en öllum má vera ljóst hve mikil tækifæri felst í þeim mikla árangri sem er að nást í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð hérlendis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert