Íslendingur á heimsmeistaramótinu í Spartan Race

William tryggir sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu með eldstökkinu í New …
William tryggir sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu með eldstökkinu í New York Mynd/Rebok Spartan Race

Heimsmeistaramótið í hindranahlaupinu Spartan Race fer fram um helgina. Íslendingar eiga fulltrúa á mótinu en hinn hálfíslenski William Dan Boyce er meðal keppenda. William komst áfram á heimsmeistaramótið í júní síðastliðnum, aðeins tveimur mánuðum eftir að hann keppti á sínu fyrsta móti í greininni.

Hindranahlaupið Spartan Race á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna en í dag eru slík hlaup reglulega haldin víðsvegar um heiminn. Hindranahlaup eiga margt skylt við crossfit. Um er að ræða hlaup þar sem keppendur þurfa að yfirstíga hindranir til að komast á leiðarenda. Á heimasíðu Spartan Race segir að keppnin sé í farabroddi í heimi hindranahlaupa. Spartan Race hlaupin eru á nokkrum erfiðleikastigum, þau eru mislöng og mismargar hindranir verða á vegi hlaupara. Hindranirnar eru af ólíkum toga, til dæmis að skríða undir gaddavír, klifra upp reipi og hoppa fyrir vegg eða jafnvel eld.

William spreytir sig við eina hindrunina
William spreytir sig við eina hindrunina Mynd/Savage Race

Býr í Bandaríkjunum en hlaut íslenskt uppeldi í Frakklandi

William er tuttugu og tveggja ára og býr hann um þessar mundir í Austin í Texas í Bandaríkjunum, þar sem hann er á lokaári í vélaverkfræði. William er uppalinn í Frakkalandi en móðir hans er íslensk. Spurður um tengingu sína við Ísland segist hann elska landið, uppeldið hafi að mörgu leyti verið íslenskt og hann hafi komið hingað reglulega á yngri árum ásamt fjölskyldu sinni. Hann gæti jafnvel hugsað sér að búa hér í framtíðinni en í bili er stefnan sett á bandarískan vinnumarkað.

William datt inn í hindranahlaupið af einskærri tilviljun. „Það var haldið mót hérna í Austin og mig langaði að prófa. Ég ákvað að slá til og skemmti mér svo vel og kynntist frábæru fólki,“ segir hann. William hefur sterkan íþróttabakgrunn en hann æfði tennis frá því að hann var lítill. Leikni hans í tennis varð svo til þess að hann flutti til Bandaríkjanna því hann komst á íþróttaskólastyrk hjá King University í Texas og hóf að spila í NCAA tennis deildinni. Tveimur árum síðar komst hann inn í vélaverkfræði í University of Texas og ákvað hann að slá til þó skólastyrkurinn færi ekki með. Eftir að William skipti um skóla fór hann að kenna tennis og stunda líkamsrækt á eigin vegum, var mikið að hlaupa og gera crossfit æfingar heima hjá sér. Eftir fyrsta hindranahlaupið var ekki aftur snúið. „Ég áttaði mig á því að ég væri ekki slæmur í þessu. Með réttri þjálfun gæti ég orðið nokkuð góður.“

William er mættur á keppnisstað við Tahoe-vatn í Kaliforníu
William er mættur á keppnisstað við Tahoe-vatn í Kaliforníu Mynd/William Boyce

Stóra stundin runnin upp

Því varð úr að nokkrum vikum seinna keppti William í úrvalshópi þar sem fyrstu fimm sætin tryggðu sér farmiða til Kaliforníu á heimsmeistaramótið. Það tókst ekki í það skiptið en William lét deigan ekki síga og tók sér sex vikur til frekari æfinga. Það var svo í úrvalskeppni í New York þann 12. júní að William tryggði sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu.

Síðustu mánuði hefur William æft stíft í um 2-3 klukkustundir á dag. Hann er tilbúinn fyrir helgina og segist nú óhræddur við þær hindranir sem áður reyndust honum erfiðar. Markmiðið er að vera í efsta þriðjahlutanum en draumurinn er að ná einu af 100 efstu sætunum. William segist hlakka mikið til að spreyta sig.

„Stóra stundin er runnin upp. Þetta verður erfitt, ég er mest hérna til að fá reynsluna. Það er mikið af betri og reynslumeiri mönnum að keppa á móti mér. Planið er að hafa gaman og auðvitað að gera mitt besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert