Virknin er á vatnasviði Múlakvíslar

Katla í Mýrdalsjökli.
Katla í Mýrdalsjökli. Rax / Ragnar Axelsson

Fundi vísindaráðs almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra lauk nú seinni partinn í dag, en farið var yfir þá stöðu sem er uppi vegna aukinnar skjálftavirkni í Kötlu. Ákveðið var að farið yrði með aukinn rannsóknarbúnað nær upptökum jarðskjálftanna á morgun til að hafa betri yfirsýn yfir virknina. Þetta segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Segir Kristín að helstu merkin um óróa í Kötlu vera aukna jarðskjálftavirkni sem menn telja að sé við ketil 16 í eldstöðinni. Segir hún að nú þegar séu jarðhræringarnar meiri en árið 1999 og 2011 þegar hljóp undan jöklinum. „Við erum komin með fleiri og öflugri skjálfta en 2011 og líka árið 1999,“ segir hún.

Skoða hlaup niður Sólheimajökul eða í Múlakvísl

Jarðskjálftarnir í dag eru að sögn Kristínar ekki alveg við þekktan ketil, en næst upptökunum er ketill 16. Segir Kristín mjög erfitt að staðsetja jarðskjálfta í eldfjöllum og því verði farið á morgun með mælana til að reyna að fá greinilegri mynd af stöðunni.

Aðspurð hvaða þýðingu aukin virkni við ketil 16 þýði segir hún að vegna óvissunnar sé erfitt að segja nákvæmlega til um bæði það sem sé að gerast undir jöklinum og hvort og þá hvert mögulegt hlaup myndi fara. Segir hún að það sem helst sé til skoðunar sé að hlaup færi niður Sólheimajökul eða í Múlakvísl, en þó sé Múlakvísl líklegri. „Jarðskjálftaklessan er núna á vatnasviði Múlakvíslar,“ segir hún og vísar þar til upptaka þeirra skjálfta sem hafa verið að mælast.

„Svo er spurningin, ef það kemur öflugt gos, við gætum fenguð svakalegt hamfaraflóð. Það kæmi líklegast undan þessum jöklum austan við Kötlu,“ segir Kristín.

Virknin undanfarna daga í Kötlu. Eins og sjá má er …
Virknin undanfarna daga í Kötlu. Eins og sjá má er um hálfgerða „klessu“ jarðskjálfta að ræða á þessu korti, eins og Kristín orðar það. Mynd/Veðurstofa Íslands

„Katla er til alls líkleg“

Árið 2011 varð hlaup í Múlakvísl sem hrifsaði brúna á hringveginum í burtu. Árið 1999 varð hlaup úr Sólheimajökli. Segir Kristín að undir jöklinum sé jarðhitasvæði sem sé alltaf að bræða vatn. Það safnist upp í poka sem hlaupi svo fram þegar þeir nái ákveðnum þrýstingi. Við það verður þrýstingsléttir á jarðhitasvæðinu og í kjölfarið verði aukin skjálftavirkni og árið 2011 hafi það einmitt gerst og hlaupið hafi úr katli 16. Segir hún að enn sé deilt um hvort það hafi verið lítið eldgos eða ekki.

Síðasta Kötlugos sem vitað er fyrir víst að var eldgos varð árið 1918. Kristín segir að það hafi verið álíka kröftugt og Eyjafjallajökulsgosið, en gosin í Kötlu geti verið öflugari eða minni en það. „Katla er til alls líkleg,“ segir Kristín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert