Bjargvættur á Hlíðarenda

Lárus Loftsson matreiðslumaður og Gunnar Kristjánsson þjónn raða á eitt …
Lárus Loftsson matreiðslumaður og Gunnar Kristjánsson þjónn raða á eitt borðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erlendis er þekkt að íþróttafélög bjóða þeim sem leggja mest í púkkið, fulltrúum styrktarfyrirtækja og ársmiðahöfum, í veitingar fyrir leiki og í hálfleik. Mörg íslensk félög og íþróttasambönd hafa tekið upp þennan sið og þar á meðal Knattspyrnufélagið Valur í Reykjavík, en Lárus Loftsson matreiðslumaður hefur séð um veitingarnar á eigin kostnað á öllum heimaleikjum Pepsi-deilarliðs karla undanfarin fjögur keppnistímabil.

„Þetta var óttalega fátæklegt, menn voru að sníkja vínarbrauðslengjur úti um víðan völl og í stuttu máli var illa staðið að þessu og ekki sæmandi fyrir Knattspyrnufélagið Val að standa svona að málum,“ segir Lárus um ástæðu þess að hann tók að sér að sjá um veitingarnar. Hann situr í stjórn fulltrúaráðs Vals með Halldóri Einarssyni og Jóni Gunnari Zoëga og það tók málið að sér. „Þá dæmdist auðvitað á mig að sjá um veitingarnar, ég gerði það með ánægju og hef sinnt þessu á eigin kostnað með glöðu geði.“

Félagarnir Lárus og Gunnar Kristjánsson þjónn mæta um tveimur tímum fyrir leik til að gera allt tilbúið fyrir veitingarnar í hálfleik. Ásgerður Karlsdóttir aðstoðar þá síðan við fráganginn. Á borðum eru snittur, samlokuhorn, kökur og fleira fyrir utan heita og kalda drykki, te, kaffi, vatn, djús og gosdrykki. „Það mæta alltaf vel á annað hundrað manns, 100 til 150 manns, og nóg verður að vera til af öllu,“ segir Lárus. „Það skiptir líka máli hvernig hlutunum er stillt upp og þá kemur fagmennska okkar til góða.“

Endurgreiðsla til félagsins

Lárus leggur áherslu á að hann sé að endurgreiða félaginu það sem hann hafi fengið frá því í áratugi. „Ég ólst upp í Val, átti heima í Eskihlíð og Valsvöllurinn var leikvöllurinn.“ Hann lék upp alla flokka og byrjaði að þjálfa 18 ára. Hann var barna- og unglingaþjálfari í áratugi, fyrst hjá Val, síðan KR og Stjörnunni og í 17 ár var hann þjálfari drengja- og unglingalandsliða Knattspyrnusambands Íslands. Auk þess þjálfaði hann meistaraflokka Gróttu, Þróttar og Fylkis. „Mér finnst gaman að geta gert það sem ég geri best fyrir félagið og borgað því þannig til baka fyrir allt sem það hefur gert fyrir mig,“ segir Lárus, sem sinnti þjálfun samfara fullu starfi í þrjá áratugi.

Veislumatnum á Valsleikjum hefur verið vel tekið og hefur Lárus það eftir formanni knattspyrnudeildar að ársmiðahöfum hafi fjölgað til muna. „Þegar menn hafa komið einu sinni koma þeir aftur. Gestir hafa kunnað vel að meta veitingarnar og gárungarnir segja að þó að fyrri hálfleikur þyki kannski leiðinlegur á að horfa bjargi hléið málunum.“

Síðan 1988 hefur Lárus rekið matreiðslufyrirtækið Veitingaþjónustu Lárusar Loftssonar. Hann verður sjötugur í þessum mánuði og gerir ráð fyrir að fara að rifa seglin. „Ég fer að undirbúa lendingu,“ segir hann, en Pepsi-deild karla lýkur í dag og þá tekur Valur á móti ÍA.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert