Kosningaáherslur Vinstri grænna kynntar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sent frá sér skjal um helstu kosningaáherslur flokksins fyrir komandi kosningar. Flokkurinn vill byggja upp velferðarsamfélag fyrir alla með því að jafna kjör, draga úr aðstöðumun og bæta möguleika allra til þátttöku í samfélaginu.

Í húsnæðismálum vilja Vinstri grænir tryggja húsnæðislán fyrir alla tekjuhópa þannig að þeir sem vilji eignast eigið húsnæði eigi þess kost. Jafnframt vill flokkurinn tvöfalda stofnframlög til uppbyggingar leiguhúsnæðis þannig að raunverulegir valkostir verði í boði fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði. Þá telur flokkurinn einnig að hækka þurfi húsnæðisbætur og samræma fyrir eigendur og leigjendur.

Vilja stytta vinnuvikuna 

Flokkurinn vill hlúa að barnafjölskyldum með því að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði og hækka greiðsluþakið sem og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þá vilja Vinstri grænir stytta vinnuvikuna þar sem rannsóknir sýni að stytting vinnuvikunnar auki bæði framleiðni og lífsgæði. Með því að stytta vinnuvikuna verði samfélagið fjölskylduvænna þar sem meiri tími gefist til samveru með fjölskyldunni.

Á fyrstu hundrað dögum nýrrar ríkisstjórnar mun það verða forgangsverkefni Vinstri grænna að kalla alla aðila að borðinu til að ná saman um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og aðgerðaáætlun til að ná því takmarki að árið 2020 verði heildarútgjöld til heilbrigðismála 11% af vergri landsframleiðslu á ári hverju. Flokkurinn segir að auka þurfi framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu þannig að þau verði sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Þá vil flokkurinn setja kraft í að ljúka byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og efla um leið sjúkraflutninga og sjúkraflug um land allt.

Aukið jafnrétti til náms

Þá vill flokkurinn tryggja traustan grunn undir skapandi greinar með markvissri undirstöðumenntun og þátttöku nemenda á öllum skólastigum. Vinstri grænir vilja efla Listaháskólann og rannsóknir á þeim sviðum og styðja sjálfsprottnar listir og menningu með beinum aðgerðum. Flokkurinn vill auka jafnrétti til náms og tryggja aðgengi nemenda að bóknámi, iðnnámi, listnámi og fjölbreyttu tómstundastarfi.

Þá vilja Vinstri grænir auka þátttöku almennings í allri ákvarðanatöku og bæta aðgengi að upplýsingum. Flokkurinn vill ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klára nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs.

Áherslur flokksins í ríkisfjármálum taka mið af grunnstefnu hreyfingarinnar um öflugt og samábyrgt velferðarkerfi á Íslandi og um leið að skattkerfið sé skilvirkt, réttlátt, grænt, jafni tekjur og eyði aðstöðumun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert