„Leyfi til að drepa“

Frá því árás var gerð á sjúkrahús Lækna án landamæra í Kunduz í Afganistan fyrir ári síðan hafa verið gerðar árásir á 66 sjúkrahús sem samtökin taka þátt í að starfrækja, þar af sex í Jemen. Áður var það þannig að starfsfólk mannúðarsamtaka gat treyst því að það væri öruggt á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. En það er liðin tíð þrátt fyrir að slíkar árásir séu brot á á Genfarsáttmálanum, alþjóðlegum sáttmála um mannúðarskyldur ríkja í stríði.

AFP

Joanne Liu, formaður Lækna án landamæra (Médecins Sans Frontières, MSF), ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í vikunni þar sem hún minnti ráðið á að í maí hafi fulltrúar ríkjanna 15 sem eiga aðild að ráðinu samþykkt harðorða ályktun um að vernda almenna borgara og að heilbrigðisstarfsmenn þurftu að vera öryggir. Nú fimm mánuðum síðar sé ljóst að þetta voru orðin tóm – ekkert hefur verið gert til þess að vernda almenning og um leið þá sem starfa á heilbrigðisstofnunum á stríðshrjáðum stöðum. Þetta sé til marks um að pólitískur vilji er ekki fyrir hendi enda koma fjórar af þeim fimm þjóðum sem eiga fastafulltrúa í ráðinu að stríðinu í Jemen, Sýrlandi og Afganistan.  

Ríkin fimm: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland  eiga fastafulltrúa í ráðinu og hafa neitunarvald í öllum málum sem ráðið tekur fyrir. Þau eiga öll, fyrir utan Kína, aðild að stríðrekstri í ríkjunum þremur, Afganistan, Jemen og Sýrlandi.

AFP

Það var Bandaríkjaher sem gerði loftárásina á sjúkrahúsið í Kunduz 3. október í fyrra. Bandaríkjaher segir að um mistök hafi verið að ræða og enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar. MSF hefur ítrekað óskað eftir því við forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, að fram fari óháð og sjálfstæð rannsókn á árásinni sem kostaði 42 lífið. Bæði starfsfólk sjúkrahússins og sjúklinga. Árás sem varð til þess að Læknar án landamæra hættu að starfa í Kunduz af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki hægt að leggja fólk í þá hættu að starfa þar. Árás þar sem sjúklingar brunnu lifandi á sjúkrabeði á sjúkrahúsi þar sem þau töldu sig örygga fyrir árásum. Þetta þýðir að fleiri hundruð þúsund íbúar á þessu svæði eru án læknisþjónustu.

AFP

Frétt Guardian

Joanne Liu segir að á meðan baráttan við hryðjuverkasamtök stjórni stríðsrekstri í heiminum þá hafi verið gefið út leyfi til að drepa.

„Við biðjum ykkur öll – aftur – að afturkalla þetta leyfi,“ sagði Liu þegar hún ávarpaði öryggisráðið á miðvikudag.

Hún segir að það sé ekki hægt að semja um árásir á sjúkrahús og heilbrigðisstarfsfólk, það sé einfaldlega lína sem ekki eigi einu sinni að vera til umræðu. Árásir á sjúkrahús séu óásættanlegar.

Helena Jónsdóttir sálfræðingur starfar hjá Læknum án landamæra og var nýlega farin frá Kunduz þegar árásin var gerð.

AFP

Hún segir að árásin sem og aðrar árásir sem hafa verið gerðar á sjúkrahús og starfsmenn MSF hafi eðlilega áhrif á fólk.

„Þegar talibanar réðust inn í borgina ráðlögðum við starfsfólki okkar að halda sig á sjúkrahúsinu þar sem það væri öruggasti staðurinn í borginni. Þetta er eini staðurinn sem öruggt er að verði ekki sprengdur,“ segir Helena.

En annað kom upp á daginn líkt og víða annars staðar. Til að mynda árásin sem Rússar gerðu á bílalest Sameinuðu þjóðanna með hjálpargögn til stríðshrjáðra íbúa í Aleppo í Sýrlandi fyrir skömmu. Eða árásir Sáda á sjúkrahús í Jemen. „Þetta sýnir okkur svart á hvítu að það er enginn óhultur, hvergi.“

AFP

Á sama tíma og herferð fer fram á samfélagsmiðlum þar sem fólk birtir af sér mynd með spjald þar sem ríki eru beðin um að hætta að gera árásir á sjúkrahús berast fregir af loftárásum á sjúkrahús í Aleppo.  

Fyrr í dag  var greint frá því að árás hafi verið gerð á stærsta sjúkrahús borgarinnar í þeim hluta Aleppo sem er undir yfirráðum uppreisnarmanna. Samkvæmt upplýsingum frá Syrian American Medical Society, sem kemur að starfsemi sjúkrahússins, var tunnusprengjum varpað á sjúkrahúsið en síðast var gerð loftárás á það á miðvikudaginn.

Eins berast fregir af árásum sýrlenska stjórnarhersins, með stuðningi frá Rússum, á gamla borgarhlutann í Aleppo þar sem sögulegar minjar er að finna. 

AFP

Á mánudag verður árásarinnar á sjúkrahúsið í Kunduz minnst með mínútuþögn. Þar á meðal við Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló í Noregi þar sem læknar og annað starfsfólk ásamt fulltrúum Rauða krossins sameinast í þögn þar sem fórnarlamba árása á sjúkrahús verður minnst.

Helena hefur sent nefndarmönnum í utanríkismálanefnd Alþingis bréf þar sem hún hvetur þá til þess að fordæma árásirnar.

„Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum sem og venjurétti skal heilbrigðisþjónusta njóta verndar í stríðsátökum. Þessi vernd hefur gert þúsundum hlutlausra heilbrigðisstarfsmanna kleift að fara til eða að átakasvæðum til að hlúa að þeim fjölmörgu sem óhjákvæmilega slasast í stríði. Árásir sem beinast gegn heilbrigðisstofnunum eru stríðsglæpir. Þegar heilbrigðisstarfsfólk er myrt og heilbrigðisstofnanir lagðar í rúst fara ótal sjúklingar á mis við læknismeðferð, einmitt á þeim tíma er þeir helst þarfnast umönnunar.

Helena Jónsdóttir, sálfræðingur og starfsmaður Lækna án landamæra.
Helena Jónsdóttir, sálfræðingur og starfsmaður Lækna án landamæra.

Á síðustu árum hafa árásir á heilbrigðisstofnanir færst í aukana, í löndum á borð við Sýrland, Jemen, Afganistan og víðar. Þessi lítilsvirðing fyrir mannúðarlögum er orðin kerfisbundið vandamál og hefur verið lýst sem „kapphlaupi niður á botninn“. Hætta er á að þetta ómannúðlega og ólöglega framferði verði hið nýja viðmið.

Virtar stofnanir og samtök á borð við Lækna án landamæra (MSF), Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) og Physicians for Human Rights hafa skráð mörg hundruð árásir á sjúkrahús og mörg þúsund árásir og morð á heilbrigðisstarfsfólki.

Það er liðið eitt ár frá árásinni á sjúkrahúsið í …
Það er liðið eitt ár frá árásinni á sjúkrahúsið í Kunduz.

Í ávarpi til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 3. maí 2016 var bent á þá staðreynd að fjórar af fimm þjóðum sem eiga fast sæti í öryggisráðinu, og allar hafa löggilt Genfarsáttmálann, taka þátt í þessum árásum í mismiklum mæli. Í ályktun Öryggisráðsins frá því í maí á þessu ári 2286 er minnt á þá vernd sem mannúðarlög kveða á um til handa heilbrigðisstarfsfólki og stofnunum, og þess krafist að ríki og vopnaðar sveitir fari að ákvæðum þeirra. Fyrri ályktunum af sama toga hefur greinilega ekki verið framfylgt.

Viðbrögð einstakra ríkja hafa ekki verið nægilega öflug til að brjóta á bak aftur þessa atlögu að heilbrigðisþjónustu og mannúðarstarfi í stríðsátökum. Eina leiðin til þess að ályktunin beri árangur er sú að allar þjóðir er aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum láti í sér heyra og krefjist þess að þær reglur séu sannarlega virtar er kveða á um vernd fyrir heilbrigðisstarfsfólk og – stofnanir, og gangi eftir því að þegar reglurnar eru brotnar viðurkenni gerendurnir það kerfi sem sinna á upplýsingagjöf, rannsókn og viðurlögum. Þetta ber hverju einasta aðildarríki að gera.

Hér var einu sinni sjúkrahús.
Hér var einu sinni sjúkrahús. AFP

Ég fer þess á leit við ykkur, kjörna fulltrúa mína, að þið tryggið að ríkisstjórn Íslands fordæmi opinberlega árásir á sjúkrastofnanir og skuldbindi sig til þess að ítreka skyldur allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna við mannúðarlög og ályktun 2286. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að eiga frumkvæði að því að styðja við vernd heilbrigðisþjónustu í stríðsátökum,“ segir í bréfi Helenu til nefndarmanna.

AFP
Eyðilegging og mannfall blasti við eftir árás Bandaríkjahers á sjúkrahús …
Eyðilegging og mannfall blasti við eftir árás Bandaríkjahers á sjúkrahús í Kunduz í Afganistan. Bandaríkjamenn sögðu að árásin hefði verið gerð óvart. AFP
Drengur sem á sjúkrahúsinu í Kunduz þegar árásin var gerð.
Drengur sem á sjúkrahúsinu í Kunduz þegar árásin var gerð. AFP
Sjúkrahús Lækna án landamæra í Kunduz gjöreyðilagðist í árásinni.
Sjúkrahús Lækna án landamæra í Kunduz gjöreyðilagðist í árásinni. AFP
Frá sjúkrahúsinu í Kunduz
Frá sjúkrahúsinu í Kunduz AFP
Starfsfólk sjúkrahússins í Kunduz að störfum
Starfsfólk sjúkrahússins í Kunduz að störfum AFP
Aðstæðurnar í Kunduz.
Aðstæðurnar í Kunduz. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert