Jarðskjálftahrinunni í Kötlu lokið

Vísindaráð telur jarðskjálftahrinunni í Kötlu vera lokið. Áfram verður þó …
Vísindaráð telur jarðskjálftahrinunni í Kötlu vera lokið. Áfram verður þó fylgst vel með gangi mála. mbl.is/RAX

Jarðskjálftahrinunni sem hófst í Kötlu á fimmtudaginn í síðustu viku er lokið. Þetta er mat vísindaráðs Almannavarna sem fundaði nú í morgun. Í framhaldi af fundinum ákvað Lögreglan á Suðurlandi að opna að nýju veginn að Sólheimajökli og fyr­ir göngu­ferðir á jök­ul­inn.

„Þessi hrina er sú öflugasta sem hefur komið í Kötlu nokkra áratugi og það verður fylgst vel með Kötlu áfram,“ segir Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands sem situr í Vísindaráðinu. Hann segir mikla virkni búna að vera í Kötlu í allt haust.  „Við vitum ekki hvort þetta sé einhver endapunktur, eða bara skref í einhverri atburðarrás. Það verður bara að koma í ljós.“

Frétt mbl.is: Opnað fyrir umferð að Sólheimajökli

Magnús Tumi segir Vísindaráðið hafa rætt á fundi sínum hvernig leita megi leiða til að reyna að skilja atburðarásina betur. Veðurstofan setti um helgina upp skjálftamæla á Austmannsbungu og í Grænufjöllum í suðurjaðri jökulsins og þá kom Jarðvísindastofnun einnig fyrir GPS mæli í Grænufjöllum. „Það er ekki auðvelt að fylgjast með Kötlu,“ segir hann, „en það var bætt við vöktunarkerfið til að reyna að skilja betur þessa jarðskjálfta sem eru í gangi.“

Hann segir vetrarveðrin framundan ekki auðvelda mönnum þá vinnu. „Katla tekur á sig öll veður og allar lægðir sem á land koma.“ Þá geti metersþykkt snjólag sest í Kötlu á skömmum tíma og allt slíkt geti haft áhrif á mælitækin. „Það er reynt að setja upp tæki og ganga þannig frá þeim að þau standist vetrarveðrin og virki sem lengst, en þetta er ekki auðvelt,“ segir Magnús Tumi. „En það eru feikilega góðir og öflugir tæknimenn sem sinna þessu, bæði hjá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun.“

Mbl.is ræddi á föstudag við ferðaþjónustufyrirtækið Arcanum sem hefur lagt af allar ferðir ofan í Kötlu-öskju í kjölfar óróans undanfarnar vikur. Blaðamanni leikur því forvitni á að vita hvort Magnús Tumi telji óhætt að fara þangað að svo stöddu.

„Ég held að það séu fáir að fara í Kötlu-öskju núna, en ef menn eru að fara þangað þá held ég að þeir eigi að hafa varann á sér og fylgjast vel með öllum hreyfingum og breytingum og vera í sambandi við einhvern sem getur fylgst ört með stöðu mála.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert