Gæti eyðilagt viðkvæm verk

Andri Snær Magnason, rithöfundur.
Andri Snær Magnason, rithöfundur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun stjórnar listamannalauna um að synja blaðamanni, sem ekki er nafngreindur, um að fá upplýsingar um starfslaunaumsóknir Andra Snæs Magnasonar, rithöfundar, allt frá árinu 1997.

 Beiðninni var synjað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga þar sem þær hefðu að geyma einkahagsmuni starfslaunaþegans. Úrskurðarnefndin tók fram að almenningur eigi ríkan rétt til aðgangs að gögnum um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Sá réttur verði hins vegar almennt að víkja fyrir þeim hagsmunum listamanna að upplýsingar um verk í vinnslu og ófullkomin verk, hugmyndir að verkum, ferlum við sköpun listverka og afstöðu listamanna til verka sinna séu ekki á almannavitorði, sbr. 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar. Staðfest var synjun stjórnar listamannalauna á þeim hluta skýrslnanna sem hafa að geyma slíkar upplýsingar en blaðamanni heimilaður aðgangur að því sem eftir stendur:

„Stjórn listamannalauna ber að afhenda kæranda, A, eftirfarandi gögn: 

  1. Skýrslum um störf starfslaunaþegans B árin 1997, 1999 og 2002, dags. 12. desember 1997, 1. desember 1999, 11. og 12. nóvember 2002 (eyðublöð án fylgiskjala).

  2. Skýrslum um störf starfslaunaþegans B árin 2000, 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008, dags. 14. desember 2000, 17. nóvember 2004, 15. nóvember 2005, 1. október 2006, 2. október 2007 og 2. október 2008 (eyðublöð), þó þannig að afmáðar verði upplýsingar sem fram koma í reitunum: „Upplýsingar um framgang verkefnis/verkefna á árinu.“

  3. Skýrslum um störf starfslaunaþegans B árin 2011 og 2012, ódags., þó þannig að afmáðar verði upplýsingar sem fram koma í reitunum: „Hnitmiðuð greinargerð um verkefni sem vinna á að á starfslaunatímanum“, „Náms- og starfsferill umsækjanda, viðurkenningar og verðlaun“ og „Framvinduskýrsla“. 

Að öðru leyti er hin kærða ákvörðun staðfest.“

Söngleikurinn Blái hnötturinn, sem er byggður á samnefndri barnabók eftir …
Söngleikurinn Blái hnötturinn, sem er byggður á samnefndri barnabók eftir Andra Snæ Magnason, var frumsýndur í Borgarleikhúsinu í september.

Um miðjan janúar birti Fréttablaðið og Vísir fréttir um hversu háar fjárhæðir ákveðnir rithöfundar hefðu fengið úr starfslaunasjóði listamanna.

Almannahagsmunir að fá upplýsingar um umsókn Andra Snæs

Blaðamaðurinn, sem óskaði eftir upplýsingum um umsóknir Andra Snæs 20. janúar, segir í kærunni að gögnin séu nauðsynleg til þess að almenningur og fjölmiðlar geti lagt betur mat á það hvort sú gagnrýni sem fram hefur komið eigi rétt á sér hvað varðar þennan tiltekna starfslaunaþega, launasjóðinn og skipulag listamannalauna almennt. 

Heimildamyndin Draumalandið byggir á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar
Heimildamyndin Draumalandið byggir á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar mbl.is/Ómar

Í kæru segir að upplýsingarnar séu ekki einkamálefni í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Starfslaunum sé úthlutað á grundvelli umsóknar vegna tiltekins listræns verkefnis sem starfslaunaþega ber að starfa að og gera grein fyrir framgangi þess. Samkvæmt lögunum megi fella starfslaunin niður, starfi launþegi ekki að verkefninu. Með því að leggja fram umsókn um að hljóta starfslaun frá hinu opinbera vegna tiltekins listræns verkefnis, geti starfslaunaþegi ekki gert ráð fyrir því að gagnvart almenningi ríki fullkomin leynd yfir þeim verkefnum  sem starfslaun eru veitt fyrir. Um sé að ræða opinbera styrkveitingu og almenningur og fjölmiðlar eigi rétt á að veita hinu opinbera aðhald varðandi það hvort fjármunum hins opinbera sé varið í samræmi við lög og reglur. Ef gögnin innihalda upplýsingar um einkamálefni telur kærandi að engu að síður beri að afhenda þau, þó þannig að upplýsingar um einkamálefni verði afmáðar. Á þetta féllst úrskurðarnefndin ekki og var því beiðni blaðamannsins hafnað.

RÚV greindi frá þessu í gærkvöldi og jafnframt að Andri Snær Magnason hafi staðfest í samtali við fréttastofu RÚV að hann væri umræddur rithöfundur.

Tímakistan hlaut árið 2014 barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins auk …
Tímakistan hlaut árið 2014 barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins auk fleiri verðlauna.

Andri Snær segir í samtali við mbl.is að óskað hafi verið eftir upplýsingum um umsóknir hans til sjóðsins allt frá árinu 1997. Þarna sé að finna gríðarlega miklar upplýsingar, allt frá trúnaðargögnum upp í sögur sem hann hefur unnið að.

„Þetta mál snertir ekki aðeins mig persónulega heldur frelsi rithöfunda almennt á Íslandi. Meðgöngutími bóka getur verið langur og það geti skaðað verk höfunda ef allar hugmyndir eru birtar mörg ár aftur í tímann. 

Ef maður er að skrifa viðkvæm verk eins og Draumalandið þá gæti það eyðilagt verkið.“ segir Andri Snær í samtali við mbl.is og bætir við að það væri heldur ekki gott ef flétta sögu yrði birt í fjölmiðlum áður en bókin kemur út. 

Bók Andra Snæs Love Star hlaut í maí frönsku rithöfundaverðlaunin …
Bók Andra Snæs Love Star hlaut í maí frönsku rithöfundaverðlaunin Grand Prix de l'Imaginaire í flokki vísindasagna.

„Á meðan ég virði reglur um upplýsingaskyldu og trúnað þá er ég á svipuðum stað og blaðamenn sem upplýsa ekki fyrirfram um fréttirnar sem þeir eru að vinna að, “segir Andri Snær.

Sjóðurinn er kjölfestan í íslenskri bókmenntastarfsemi

Andri Snær segir mikilvægt að taka umræðuna um gagnsæi höfunda. Þeir fái fastri fjárhæð úthlutað til ákveðins tíma og mikið fjallað um launin í opinberri umræðu hér á landi. Á sama tíma eru ýmsar framkvæmdir sem eru greiddar úr opinberum sjóðum sem fara fram úr fjárheimildum. 

„Harkan í umræðunni hefur komið í veg fyrir að höfundar hafi getað rætt um kjör sín,“ segir Andri Snær og bendir á að margar bækur taki mörg ár að skrifa.

„Örtungumál eins og íslenskan eignast ekki hóp öflugra rithöfunda nema þjóðin styðji við ritlistina. Það sem hryggir mig í þessari umræðu er þessi ótrúlega orðbragð sem er notað, til að mynda á netinu þegar upplýst er um hverjir fái úthlutað úr starfslaunasjóði listamanna,“ segir Andri Snær. 

Hann bendir á að virðisaukaskattur af bókum sé um 600 milljónir á ári á sama tíma eru greiddar út um 200 milljónir króna úr launasjóði rithöfunda. 

„Sjóðurinn er kjölfestan í íslenskri bókmenntastarfsemi og það er nauðsynlegt að efla hann ef við viljum haldi úti blómlegri bókmenntastarfsemi. Stuðningur við barnabókahöfunda er til dæmis skammarlega lítill og sjóðurinn hefur ekki vaxið til að taka á móti ungum og efnilegum höfundum. Verktakagreiðslan mánaðarlega jafnast líka á við hálf kennaralaun svo höfundar þurfa að selja mikið heima og erlendis til að ná meðaltekjum.   

Árangur sjóðsins hefur skilað sér í því að aldrei hafa jafn margar íslenskar bækur komið út erlendis. Við eigum orðið stétt atvinnuhöfunda sem eru gildandi á alþjóðlegum mæli sem ekki var í kringum 1990,“ segir  Andri Snær og bendir á að þetta megi meðal annars þakka því að íslenskir rithöfundar geti sinnt starfi sínu. 

Úrskurðurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert