Hefðum ekki átt að loka herstöðinni

Skömmu eftir að þessi mynd var tekin var bandaríski fáninn …
Skömmu eftir að þessi mynd var tekin var bandaríski fáninn dreginn niður í hinsta sinn á varnarstöðinni á Miðnesheiði. mbl.is/ÞÖK

Bandarísk yfirvöld voru skammsýn í einbeitingu sinni á Mið-Austurlönd og hefðu ekki átt að loka herstöð sinni hér á landi árið 2006. Þetta segir prófessor Robert G. Loftis. Árið 2005 var hann fenginn til að ræða við íslensk stjórnvöld, um hvernig skipta ætti kostnaði við herstöðina í Keflavík.

Loftis er staddur hér á landi til að taka þátt í ráðstefnu um varnarmál, sem fram fór í dag á vegum Varðbergs, Nexus og Alþjóðamálastofnunar HÍ.

Í samtali við mbl.is segir hann að eftir lok Persaflóastríðsins hafi Bandaríkjastjórn byrjað að leita til bandamanna sinna, um að þeir myndu deila kostnaði að einhverju leyti við rekstur herstöðva í löndum þeirra.

Á Íslandi hafi horft öðruvísi við. Árið 2005 hafi Bandaríkin þegar verið búin að draga til baka mikinn hluta herflota síns. Fjórar úreltar og og óvopnaðar F-15 herþotur hafi þá verið á landinu og í raun aðeins gegnt táknrænu hlutverki, auk þyrlusveitar sem í raun hafi verið mikilvægasti þáttur stöðvarinnar.

Skiptar skoðanir um stöðu Íslands

„Þegar ég var að undirbúa för mína til Íslands varð mér ljóst að mjög skiptar skoðanir voru um stöðu Íslands innan bandarískra stjórnvalda,“ segir Loftis. Annars vegar hafi ráðamenn viljað halda við áralöngu og góðu sambandi við íslensk stjórnvöld. Aðrir hafi þó verið á þeirri skoðun að Ísland hefði of lengi fengið að njóta viðveru hersins án þess að borga neitt fyrir.

„Hugmyndin var því sú, árið 2005, að við myndum biðja íslensk stjórnvöld að greiða meirihluta kostnaðar við notkun almennra borgara á flugvellinum, og að við myndum greiða meirihluta kostnaðarins við hernaðarlega notkun hans.

Í framhaldinu myndum við ræða saman um hvernig skipta ætti ýmsum tilfallandi kostnaði, eins og vegna viðhalds flugbrauta, eldsneytis og fleira,“ segir hann og bætir við að álíka fyrirkomulag hafi tíðkast víða.

Loftis hélt framsögu á fundi Varðbergs.
Loftis hélt framsögu á fundi Varðbergs. mbl.is/Golli

Vildu færa þyrlurnar úr landi

Fóru viðræðurnar eins og þið höfðuð ætlað ykkur?

„Algjörlega ekki. Og vegna þessa fyrirskipaði þáverandi varnarmálaráðherra, Donald Rumsfeld, að herstöðinni skyldi lokað.“

Aðspurður segir Loftis að ástæður þess, að slitnað hafi upp úr viðræðunum, séu margslungnar.

„Helsta vandamálið var að Rumsfeld og ráðgjafar hans beindu athygli sinni mun meira að stríðinu í Mið-Austurlöndum og í minni mæli að varnarþörfum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.

Eitt af því sem þeir vildu gera var að taka héðan þyrlusveit og færa til Mið-Austurlanda, sem, ef satt skal segja, var vissulega meiri þörf fyrir í þeim heimshluta.“

Enginn þorði upp á móti Rumsfeld

En í stað ýtarlegs samtals um hvernig varnarþarfir Íslands höfðu þróast frá lokum kalda stríðsins, og hvernig Bandaríkin ættu að uppfylla þær skyldur sem getið var í varnarsamningi landanna, segir Loftis að bandarísk stjórnvöld hafi einfaldlega sagt: „Við getum haft áhyggjur af því seinna, lokum bara stöðinni.“

„Ekki beinlínis besta leiðin til að afgreiða vandamálið,“ bætir hann við og bendir á að Rumsfeld hafi í raun lokað stöðinni í einhvers konar reiðikasti.

„Því miður, þó að ég telji að margir innan varnarmálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og í Hvíta húsinu hafi ekki viljað að viðræðurnar enduðu svona, þorði enginn að setja sig upp á móti Rumsfeld og segja nei, þetta getur þú ekki gert.“

Eftirsjá í Bandaríkjunum

Loftis segist í raun hafa búist við því að Bandaríkjaforseti myndi grípa inn í ákvörðun Rumsfelds. Svo varð þó ekki og var stöðinni lokað árið 2006.

Og nú, tíu árum síðar, telur þú að eftirsjár gæti innan raða bandarískra stjórnvalda?

„Ég held að svo sé, að minnsta kosti varðandi hvernig þetta atvikaðist. En frá mínu sjónarhorni á málið ekki endilega að snúast um herstöðina, heldur um varnarþarfir Íslands og hvernig við, sem helsti hernaðarlegi bandamaður landsins, getum mætt þeim þörfum.

Í framhaldinu má spyrja hvort herstöð sé nauðsynleg og ef svarið er já, hvers konar herstöð?

Þess eðlis hefðu samræðurnar átt að vera árið 2005, áður en við fórum að tala um hvernig deila ætti kostnaðinum.“

Herþota tekur til flugs á Keflavíkurflugvelli.
Herþota tekur til flugs á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Þórður

Ótímabært að tala um enduropnun

Vilji Bandaríkin auka viðveru hers síns á Íslandi, hver væri helsta fyrirstaða þess?

„Fyrst myndum við þurfa að horfa á hvaða aðbúnaður sé til staðar. En allt kemur þetta niður á sömu spurningu, hvað viljið þið hafa hérna? Við hverju viljið þið reyna að sporna?

Til dæmis gegndi stöðin áður helst þeim tilgangi að fylgjast með ferðum sovéskra kafbáta. Sú ógn hefur ekki komið aftur á ný, og því þarf ekki þann viðbúnað hér á landi.“

Hugsast geti þá að Ísland nýttist sem grundvallarstöð til framtíðar fyrir ýmsar aðgerðir Bandaríkjamanna á norðurheimskautinu.

„En það er þá aftur efni í aðrar viðræður sem nauðsynlegt er að fari fram, sé vilji til þess. Og þá þyrfti auðvitað að líta til þess hvort það svaraði kostnaði, hvort hægt væri að sinna því hlutverki á skilvirkan hátt en kostnaðarminni hátt annars staðar frá.

Og þangað til þess konar viðræður eiga sér stað á milli landanna, þá er ótímabært að tala um enduropnun herstöðvarinnar.“

Gamla herstöðin við Keflavík.
Gamla herstöðin við Keflavík. mbl.is/RAX

Vilji til að snúa aftur

Loftis segist sjálfur ekki myndu hafa lokað stöðinni.

„Ég tel að það sé alltaf góð hugmynd að gefa ekki aftur það sem þú átt þegar, hvað þá að eyðileggja eða skaða alvarlega áratugalangt stjórnmálasamband.“

Þá segist hann aðspurður telja að hjá bandarískum stjórnvöldum sé vilji til þess að snúa að einhverju leyti aftur til landsins.

„En við höfum undanfarin fimmtán ár verið að fækka stöðvum og sameina á meginlandi Evrópu og líta verður á stöðu Íslands í því samhengi. Þá búum við yfir miklum möguleikum til aðgerða frá sjálfum Bandaríkjunum.

Til dæmis, ef við viljum að skip okkar vakti ferðir kafbáta á Norður-Atlantshafi, þurfum við sérstaka stöð til þess á Íslandi? Svarið er líklega ekki.“

Ísland reiðubúið til málamiðlana

Spurður hvort íslensk stjórnvöld hefðu á sínum tíma verið reiðubúin að koma að einhverju leyti til móts við beiðnir Bandaríkjamanna, segir Loftis að líkast til hefði raunin verið sú síðar meir.

„Það slitnaði ekki alveg upp úr viðræðunum. Ég held að best sé að orða það þannig að ákveðnar tafir hafi verið. Og Rumsfeld notaði það sem afsökun til að loka stöðinni. Ég tel, að ef við hefðum fengið meiri tíma til að komast að niðurstöðu, þá hefði hún verið á annan veg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert