Kjósendur fái kost númer tvö

Þingmaður Bjartrar framtíðar vill skoða hvort gefa eigi kjósendum kost …
Þingmaður Bjartrar framtíðar vill skoða hvort gefa eigi kjósendum kost á fyrsta og öðru vali til að verja atkvæði sínu. mbl.is/Golli

Ólýðræðislegt er þegar vilji kjósenda kemst ekki til skila eins og í síðustu alþingiskosningum þegar 12% atkvæða sem greidd voru framboðum sem náðu ekki mönnum á þing féllu dauð niður. Þingmaður Bjartrar framtíðar segir að skoða eigi að gefa kjósendum valkost númer tvö á kjörseðlinum.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gerði galla á kosningakerfinu að umtalsefni í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar í dag. Þröskuldur um að framboð þurfi að ná 5% fylgi til að ná inn þingmönnum þurfi ekki endilega að vera slæmur en hins vegar falli öll atkvæði sem ná ekki þeim þröskuldi niður dauð. Í síðustu kosningum hafi þetta hlutfall verið tólf prósent.

„Mér finnst það vera lýðræðisleg leið að gera kerfið þannig úr garði að kjósandi geti valið um kost númer tvö. Það er kannski einhver sem hefur hug á að kjósa flokk sem er með 2% fylgi í skoðanakönnunum en ákveður að kjósa taktískt í staðinn fyrir að kjósa með hjartanu,“ sagði Brynhildur.

Með því að gefa kjósendum þannig varakost á kjörseðlinum færðist atkvæði yfir á annað val þeirra ef fyrsta valið næði ekki nægilegu fylgi til að koma inn manni. Brynhildur sagði þetta þekkta og lýðræðislega aðferð.

„Mér finnst að við raunverulega þurfa að skoða þetta vegna þess að það er auðvitað ólýðræðislegt þegar vilji kjósenda kemst ekki til skila eins og gerðist til dæmis í síðustu kosningum,“ sagði Brynhildur sem hvatti fólk til að kjósa með hjartanu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert