Breyting verði gerð á áfengislögum

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á áfengislögum. Þar er lagt til að bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu verði afnumið.

„Áfengisneysla er rótgróinn hluti af íslenskri menningu. Framleiðsla þess, sala og neysla hafa lengi verið háð miklum takmörkunum vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem áfengisneysla veldur bæði þeim sem þess neyta og samfélaginu í heild,“ segir í frumvarpinu.

Ekki breyting á sölufyrirkomulagi

 „Helstu ágreiningsefni síðustu ára hafa snúið að sölufyrirkomulagi, þ.e. hvort áfengi skuli einungis selt í þar til gerðum, ríkisreknum verslunum, einkareknum verslunum eða hvoru tveggja. Með frumvarpi þessu er hvorki lögð til rýmkun á heimildum til dreifingar né breyting á sölufyrirkomulagi.“

Auk Helga Hrafns eru flutningsmenn frumvarpsins þau Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Vilhjálmur Árnason, Ásta Guðrún Helgadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Birgitta Jónsdóttir og Willum Þór Þórsson.

Frétt mbl.is: Uppræti dauða lagabókstafi

Framleiðsla tíðkast víða þrátt fyrir bann

Í frumvarpinu kemur fram að þrátt fyrir að framleiðsla áfengis til einkaneyslu sé bönnuð tíðkist hún mjög víða. Ekki hafi verið áberandi áhugi meðal almennings á því að tekið sé á þeim brotum.

„Það er því óhætt að fullyrða að allnokkur hópur fólks stundi framleiðslu áfengis til einkaneyslu án þess að hafa áhyggjur af framfylgni laganna þegar um einkaneyslu er að ræða. Með hliðsjón af háum refsiramma virðist reyndar vera lítil meðvitund um að at­hæfið sé yfirhöfuð bannað,“ segir í frumvarpinu.

Aukinn áhugi á íslenskum bjór

„Síðustu árin hafa rutt sér til rúms fjölmargar nýjar tegundir af íslenskum bjór. Forvitni ferðamanna og áhugi þeirra á íslenskum bjór hefur aukist samhliða þeirri þróun. Óumdeilt þykir meðal þeirra sem til þekkja að heimabruggun eigi ríkan þátt í því að svo margar nýjar gerðir bjóra hafi komið fram á undanförnum árum og aflað sér vinsælda. Það skýtur skökku við að vaxtarbroddur íslenskrar bjórmenningar og sú jákvæða ímynd sem tek­ist hefur að afla íslenskum bjór hvað varðar gæði, grundvallist í reynd á afbroti sem þung refsing liggur við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert