Féllust í faðma í þinginu

Katrín Júlíusdóttir og Svandís Svavarsdóttir í faðmlögum í þingsalnum í …
Katrín Júlíusdóttir og Svandís Svavarsdóttir í faðmlögum í þingsalnum í morgun. Skjáskot af vef Alþingis

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, féllust í faðma á þingi í dag eftir að Svandís flutti ræðu í tilefni af síðasta þingdegi Katrínar eftir 13 ára setu á þingi.

Katrín hafði haldið ræðu og steig Svandís í pontu beint á eftir henni. Vísaði hún til þess að þrátt fyrir síðasta dag Katrínar hefði ræða hennar ekkert snúist um að kveðja og því vildi hún þakka Katrínu fyrir árin á þingi. Minntist hún sérstaklega á tíma Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í ríkisstjórn eftir hrunið. Sagði Svandís að það hafi verið heiður að hafa unnið með Katrínu þetta sögubrot. Þá væri Katrín henni fyrirmynd á þinginu þrátt fyrir að vera um 10 árum yngri.

Svandís sagði Katrínu vera gríðarlega öflugan þingmann sem hafi barist fyrir betra samfélagi. Á ráðherratíma sínum hafi fyrst verið einhverjir hnökrar á milli þeirra, en svo hafi þær orðið góðir samherjar og nefndi Svandís meðal annars umhverfismál og kvenfrelsismál sem málaflokka sem þær hefðu unnið að undanfarið.

Katrín bað um andsvar við þessari ræðu og á leiðinni í pontu féllust þær í faðma. Katrín var örlítið klökk þegar hún þakkaði svo kærlega fyrir sig og sagði tímann á þingi hafa verið gefandi og góðan. Minntist hún sérstaklega á að Alþingi væri mikilvægt stofnun og að þingmenn þyrftu að vera duglegri að tala um það.

Þá grínaðist hún með að núna væri hún í heiðurssæti á framboðslista Samfylkingarinnar, aðeins 41 árs gömul. Það hafi ekki verið eitthvað sem henni hafi getað dottið í hug fyrir nokkrum árum.

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir mbl.is/Styrmir Kári

Fór hún mjög stuttlega yfir þau mál sem henni þætti vænst um á ferlinum. Þar stæði hæst að hafa unnið að því að stöðva einkavæðingu á grunnvatni, bann við framsali á eigu ríkisfyrirtækja á orkuauðlindum og lengingu fæðingarorlofs. Þá hafi náttúruverndin verið stór undanfarið og að lokum hafi hún síðustu ár fengið ástríðu fyrir málaflokki sem hún hafi aldrei átt von á að hrífast af. Það væru samgöngumálin. Sagði Katrín þau vera undirstöðu fyrir samfélagsþróun í heild sinni. Það hefði miklar afleiðingar ef ekki væri hugsað um þessi mál til langs tíma.

„Ditto elsku Svandís, takk fyrir allt saman,“ sagði Katrín áður en hún fór úr pontunni, en á morgun heldur hún á þing Sameinuðu þjóðanna og er þetta því hennar síðasti þingdagur þótt ekki sé enn búið að ákveða síðasta þingdag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert