Hækka framfærslu öryrkja og aldraðra

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Golli

Ríkisstjórnin leggur til það sem hún kallar mikla hækkun á bótum almannatrygginga næstu tvö árin. Einstæðir eldri borgarar fái 300.000 kr. á mánuði og öryrkjar sömuleiðis. Kostnaðurinn við breytingarnar er sagður nema 4,5 milljörðum króna til viðbótar við þann sem hlýst af nýju frumvarpi. 

Í tilkynningu frá ríkisstjórninni segir að hún hafi fundað um ábendingar sem hafi komið fram um frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra sem liggur fyrir Alþingi um breytingar á lögum um almannatryggingar, félagslega aðstoð og málefni aldraðra. Leggur stjórnin fram nokkrar breytingar til að taka tillit til þeirra.

Breytingarnar eru sagðar eiga að leiða til mikillar hækkunar bóta almannatrygginga á næstu tveimur árum. Í tilkynningunni segir að ríkisstjórnin telji „í ljósi ábyrgrar efnahagsstjórnunar og þess mikla árangurs sem náðst hefur á kjörtímabilinu í ríkisfjármálum, að unnt sé að stíga veigamikil skref til bættra kjara aldraðra og öryrkja“. Það byggist á sterkri stöðu þjóðarbúsins og jákvæðum framtíðarhorfum. 

Tillögur ríkisstjórnarinnar eru eftirfarandi:

  • Eldri borgurum sem halda einir heimili verði tryggðar 300 þúsund krónur á mánuði frá 1. janúar 2018, enda hafi þeir ekki aðrar tekjur sem hafa áhrif á fjárhæð bótanna. Bæturnar hækki í 280 þúsund krónur um næstu áramót. Seinna á árinu 2018 mun kauptrygging á vinnumarkaði einnig ná 300 þúsund krónum samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
  • Framfærsluviðmið öryrkja verði jafnframt 300 þúsund krónur á mánuði frá sama tíma.
  • Frítekjumark verði sett á allar tekjur eldri borgara, hvort heldur sem er lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Frítekjumarkið, sem undanþegið er við útreikning bóta, verði 25 þúsund krónur. Þessi breyting samsvarar 25 þúsund króna aukningu ráðstöfunartekna hjá stærstum hluta eldri borgara umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
  • Hækkun lífeyristökualdurs verði hraðað um 12 ár. Hækkun lágmarkslífeyristökualdurs úr 67 árum í 70 ár eigi sér þannig stað á 12 árum en ekki 24 árum eins og áður var ráðgert.
  • Þessar breytingar leiða til mikillar hækkunar á bótum almannatrygginga á næstu tveimur árum. Til dæmis munu bætur eldri borgara sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur hækka úr 247 þúsund krónum árið 2016 í 300 þúsund krónur árið 2018, eða um 22%. Bætur eldri borgara með 150 þúsund króna lífeyristekjur munu hækka úr 142 þúsund krónum árið 2016 í 229 þúsund árið 2018, eða um 61%.
  • Árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga er áætlaður um 4,5 milljarðar króna sem bætist við þær 5,0 til 5,5 milljarða króna sem voru áætluð kostnaðaráhrif frumvarps um almannatryggingar.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna frumvarps um almannatryggingar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert