Allar sögurnar eru skelfilegar

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Allar konur þekkja útgáfu af Donald Trump. Flestar okkar hafa þekkt fleiri en við kærum okkur um að muna,“ segir Hildur Lilliendahl Viggósdóttir við mbl.is. Hún hvatti kynsystur sínar til að deila reynslusögum af fyrsta skiptinu þegar þær voru beittar kynferðisofbeldi á Twitter, eftir að hafa fylgst með Kelly Oxford gera svipaða hluti.

Oxford hvatti konur til að deila reynslusögum eftir að hafa heyrt for­setafram­bjóðand­ann Don­ald Trump lýsa framkomu sinni við konur í upptöku frá árinu 2005. Þar Trump því hvernig hann í krafti stöðu sinn­ar gripi í kon­ur, kyssti þær og reyndi við þær, eins og honum sýnd­ist.

Já eða nei algjört aukaatriði

Hildur segir flestar konur þekkja fleiri menn eins og Trump en þær kæra sig um að muna. „Hann er táknmynd allra karlanna sem hafa í gegnum tíðina komið fram við okkur eins og við skuldum þeim eitthvað og það hvort við segjum nei eða já er algjört aukaatriði fyrir þeim.“

Frá því að Hildur hvatti konur á laugardag til að segja frá fyrsta kynferðisbrotinu gegn þeim hefur hún fengið fjölmörg svör. Hún var efins í byrjun. „Ég var með efasemdir um það í upphafi að margar konur myndu taka þátt, einfaldlega vegna þess að hugsanlega hefði dregið úr eftirspurninni eftir tækifærum til að segja frá eftir mikla og opna umræðu um kynferðisbrot og kúgun af ýmsum toga undir fjölmörgum myllumerkjum og herferðum undanfarin misseri.“

Konur hafi alla tíð þurft að þegja yfir kynferðisofbeldi og eru augljóslega ekki búnar að fá nóg af því að mega tala um það. „Það er ekkert við fjölda þessara frásagna sem ætti að koma okkur á óvart. Kynferðisofbeldi í víðum skilningi er eitthvað sem ég þori að fullyrða að flestar konur þekki af eigin reynslu,“ segir Hildur og bætir við:

Neyddar til ýmissa hluta

Konur hafa verið neyddar til að sjá hluti sem þær vilja ekki sjá, snerta líkama sem þær vilja ekki snerta, karlar hafa þröngvað sér kynferðislega inn í þær og upp á þær alla tíð og stundum eru þær svo vanar því að það þarf sérstakt átak svo þær átti sig á því að um ofbeldi hafi verið að ræða.“ Það gefi auga leið að það grafi undan sjálfsmynd ungrar konu að vera sagt, beint eða óbeint, frá unga aldri að hún ráði ekki líkama sínum sjálf.

Upphaflega bað Hildur sérstaklega eftir frásögn af fyrsta skiptinu. „Sumar hafa sagst þurfa að velta því virkilega fyrir sér hvaða tilvik var fyrst. Sumar segjast hafa verið svo litlar þegar það byrjaði að þær muna ekki aldurinn,“ en fjöldi kvenna vill ekki koma fram undir nafni og hefur sent þeirra sögu í einkaskilaboðum og beðið um að henni sé komið á framfæri.

„Sögurnar sem hafa verið sagðar eru allar skelfilegar og ég er ótrúlega stolt af konunum sem hafa staðið upp og sagt frá. Það er ekki hægt að stöðva heimsfaraldurinn sem ofbeldi gegn konum er ef við getum ekki talað um hann. Að því sögðu er mikilvægt að árétta að þetta er vægast sagt átakanleg lesning og ég mæli ekki með að þolendur eða aðrir með áfallastreituröskun lesi þráðinn nema að vandlega íhuguðu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert