„Ógeðfelldur málatilbúnaður“

Róbert Marshall.
Róbert Marshall. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi það á Alþingi að umhverfisráðherra hafi hlutast til um það að atvinnuveganefnd Alþingis yrði ekki svarað efnislega að því er varðaði álitamál um raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka. 

Hún kvaðst því hafa óskað eftir því að skrifstofa Alþingis tæki að sér að fara yfir ákvæði sem varðar breytingar á náttúruverndarlögum.

„Ég tel ótækt annað en að breytingar á náttúrverndarlögum fari í gegnum umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem hefur þann málaflokk með höndum,“ sagði hún og taldi rétt að bíða með að hefja umræðu um málið á Alþingi þangað til niðurstaða skrifstofu Alþingis liggi fyrir.

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði það vera með hreinum ólíkindum að gefin hafi verið fyrirmæli um að svara ekki fyrirspurn nefndarinnar. „Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni að viðlíka vinnubrögðum. Þetta sýnir með hvaða hætti allur málatilbúnaður er í þessu máli og hversu ógeðfelldur hann er.“

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fúsk í vinnubrögðum

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði það ekki rétt að hafa málið á dagskrá Alþingis. „Ég mótmæli því að hér sé ráðherra að koma inn með þvílíku gerræði og taka fram fyrir hendurnar á eðlilegum ferlum. Hér er augljóslega um mikið fúsk í vinnubrögðum að ræða. Við eigum ekki að stunda þannig vinnubrögð,“ sagði hún.

Helgi Hjörvar bætti við: „Það er áhyggjuefni ef þingnefnd fær ekki aðgang að sérfræðiþekkingu í ráðuneyti af pólitískum aðstæðum.“ Róbert Marshall steig þá aftur í pontu og sagði að í rauninni væri verið að leggja umhverfisráðuneytið niður í þessu máli.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tók einnig til máls og sagði það með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin hafi hagað sér varðandi umhverfismál. Til að mynda hafi ekki verið hér umhverfisráðherra í langan tíma. „Það sem er að gerast núna er þvílík vanvirða við málaflokkinn, vanvirða við almenning, vanvirða við hið lýðræðislega ferli. Þetta er skammarlegt, herra forseti,“ sagði hún.

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert