Haftafrumvarp samþykkt einróma

Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra þegar frumvarpið var kynnt í ágúst. mbl.is/Golli

Frumvarp fjármálaráðherra sem miðar að frekari losun fjármagnshafta og lagt var fram í ágúst var samþykkt á Alþingi í dag með 47 samhljóða atkvæðum. Enginn greiddi atkvæði gegn frumvarpinu sem miðar að því að draga úr höftum á heimili og fyrirtæki.

Lögin taka gildi í tveimur áföngum. Annars vegar við gildistöku þeirra og síðan aftur 1. janúar. Við gildistöku mun bein erlend fjárfesting innlendra aðila verða ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Þá mun fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verða frjáls að ákveðnu fjárhæðarmarki.

Einstaklingum verður heimilað að kaupa eina fasteign á ári erlendis óháð tilefni og kaupverði. Heimildir einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri verða rýmkaðar og dregið verður úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri. Seðlabanki Íslands fær auknar heimildir til upplýsingaöflunar svo hann geti stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika.

Frá og með 1. janúar á næsta ári verða fjárhæðarmörk hækkuð til fjárfestinga í fjármálagerningum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu erlendra lána, í 100 milljónir króna en fram að áramótum verður sú upphæð 30 milljónir króna.

Innstæðuflutningur verður heimilaður innan tiltekinna fjárhæðarmarka og skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendra verðbréfafjárfestinga fellur niður. Þá geta innlendir og erlendir aðilar flutt innistæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem frumvarpið setur þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert