Bætt staða kvenna í kvikmyndagerð

Dögg Mósesdóttir, formaður WIFT, tók við Bechdel-verðlaununum fyrir hönd WIFT …
Dögg Mósesdóttir, formaður WIFT, tók við Bechdel-verðlaununum fyrir hönd WIFT í september á síðasta ári.

Miklar breytingar hafa orðið á stöðu kvenna í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á síðustu árum. Vitundarvakning innan atvinnugreinarinnar hefur leitt til töluverðra framfara en mikilvægt er að halda baráttunni áfram. Þetta segir Dögg Mósesdóttir, formaður WIFT á Íslandi. 

WIFT á Íslandi: Konur í kvikmyndum og sjónvarpi fögnuðu á dögunum 10 ára starfsafmæli sínu en samtökin voru stofnuð í tengslum við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík árið 2006. WIFT á Íslandi hefur það að markmiði að styrkja tengslanet kvenna í greininni og stuðla að auknum sýnileika þeirra. Félagskonur WIFT hafa frá upphafi beint sjónum að kynjahalla í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð og hafa þær meðal annars kallað eftir framkvæmd kannana og samantekta á kynjahlutföllum og þrýst á stjórnvöld að leiðrétta hallann.

Frétt mbl.is: Konur í kvikmyndum fögnuðu 10 ára afmæli

Vitundarvakning um kynjahalla

Í samtali við mbl.is segir Dögg að margt hafi breyst til hins betra frá því að WIFT hóf að starfa á Íslandi. Nefnir hún sérstaklega þá vitundarvakningu sem hefur átt sér stað. „Það er mikilvægt að fólk skilji að það er alvarlegt vandamál að konur geti ekki speglað sig í íslenskum kvikmyndum. Það er ákveðið form af þöggun þegar konur eru ekki sýnilegar á skjánum. Þetta er okkar upplifun á raunveruleikanum og þegar konur eru ekki á skjánum er verið að segja að þær séu ekki mikilvægur hluti af samfélaginu.“

Dögg telur að viðhorfið til þessara mála hafa bæst stórlega á síðustu árum, nú taki karlar í greininni undir með konunum og breytingar hafi fylgt í kjölfarið. „Það varð einhver umskipting, sérstaklega í tengslum við kynjakvótaumræðuna. Það er eins og sú tilhugsun hafi hrist svolítið vel upp í bransanum og allir ákveðið að gera allt til þess að það þyrfti ekki að setja kynjakvóta.“

Þar á Dögg við umræðu sem átti hófst fyrir um ári síðan, þegar upp komu tillögur um að setja kynjakvóta á úthlutanir úr kvikmyndasjóði. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra lýsti á sínum tíma yfir vilja til að skoða tillöguna en ekkert hefur komið út úr því enn.

Frétt mbl.is: Á að setja kynjakvóta á úthlutanir kvikmyndasjóðs

Frétt mbl.is: Vill auka hlut kvenna í kvikmyndum

WIFT á Íslandi hefur staðið fyrir stuttmyndanámskeiðinu Stelpur filma í …
WIFT á Íslandi hefur staðið fyrir stuttmyndanámskeiðinu Stelpur filma í samstarfi við RIFF og Kvikmyndaskóla Íslands. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Staða kvikmyndagerðarkvenna í dag

Hlutur kvenna á skjánum sem og í kvikmyndaleikstjórn og -handritagerð hefur aukist síðustu ár og nýverið hafa konur einnig verið að sækja í sig veðrið í hlutverki framleiðenda. „Núna eru komnir fleiri og öflugri kvenframleiðendur sem eru með mikinn fókus á konur,“ segir Dögg. Hún telur að stofnun WIFT hafi ýtt undir viðhorfsbreytingarnar og er ánægð með þær framfarir sem samtökin hafa stuðlað að: „Það er virkilega gaman að sjá hvað það skiptir miklu máli að  það séu til samtök eins og við.“

Aðkomu kvenna að lengri kvikmyndum er þó ábótavant, segir Dögg, en barátta WIFT á Íslandi hefur að miklu leyti varðað þau mál. „Þær eru kostnaðarsamar og það virðist vera að konum sé síður treyst fyrir stórum upphæðum. Af því að til dæmis í heimildarmyndum og stuttmyndum þá gengur okkur oft mjög vel.“

Þá segir Dögg athyglisvert að á sama tíma og konur séu í rauninni líklegri til að fá styrk úr kvikmyndasjóði falli mikill meirihluti fjármagns til karla. Í samantekt KMÍ um kynjahlutföll í umsóknum og úthlutunum frá kvikmyndasjóði 2005-2015 kom fram að karlmenn væru í meirihluta meðal umsækjenda en Dögg bendir á að samantekt á upphæðum styrkja hafi ekki fylgt. Telur hún að þar komi munurinn virkilega fram.

Dögg segir kvikmyndaiðnaðinn almennt vera orðinn meðvitaðri um stöðu mála en hún telur þó nauðsynlegt að standa vaktina áfram. „Við þurfum að halda áfram að tala um þetta. Við megum ekki missa þetta niður.“

Hún telur mikilvægt að vel sé haldið utan um málefnið til frambúðar til að tryggja að staða kvenna í greininni falli ekki aftur í fyrra horf. Í því samhengi nefnir Dögg umhverfið í Svíþjóð sem dæmi. Þar séu kynjahlutföll í kvikmyndaheiminum reglulega tekin saman og allir ráðgjafar um styrkjaúthlutun fái fræðslu um stöðuna. Telur Dögg að álíka áherslur gætu virkað vel hér á landi.

Að lokum nefnir Dögg að þótt stelpur séu duglegar að fara í listnám virðast þær oft ekki horfa á kvikmyndagerð sem möguleika. Hún hvetur því allar stelpur sem íhuga listnám til að kynna sér kvikmyndagerð sem mögulegan vettvang. Þá segir Dögg að áhugasömum stelpum og konum sé velkomið að hafa samband við WIFT á Íslandi, þar geti þær fengið leiðsögn og ráðgjöf um hvernig er best að aðhafast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert