Taldi ekki þörf á nýju áliti

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Umhverfisráðuneytið svaraði ekki beiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um lögmæti raflína til Bakka vegna þess að Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, taldi ekki þörf á nýju lögfræðiáliti. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi að ráðuneytið hefði ekki svarað efnislega á þingi í dag.

Í óundirbúinni fyrirspurn til umhverfisráðherra spurði Svandís hver hafi ákveðið það að umhverfisráðuneytið hafnaði því að veita umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis efnislegt svar um lögmæti frumvarps iðnaðarráðherra um að heimila framkvæmdir við raflínur til stóriðju á Bakka þrátt fyrir að það væri á verksviði ráðuneytisins.

Sigrún svaraði að eins og Svandís vissi sjálf þá væri það á endanum alltaf ráðuneytisstjóra og ráðherra að leggja mat á hvað fari frá ráðuneytinu. Vísaði Sigrún til þess að ríkisstjórnin hafi verið búin að fá utanaðkomandi lögfræðiálit á frumvarpinu sem sagði að frumvarpið stæðist líklega lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í umhverfisrétti.

Sjálf hafi hún talið að ekki þyrfti annað lögfræðiálit og því hafi ráðuneytið ekki svarað beiðni þingnefndarinnar um álit efnislega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert