Flugliðar neita tiltekt í flugvélum WOW air

Svanhvít Friðriksdóttir uppllýsingarfulltrúi WOW air.
Svanhvít Friðriksdóttir uppllýsingarfulltrúi WOW air. Árni Sæberg

Dæmi eru um að flugliðar hjá Wow air hafi neitað að taka til í flugvélum flugfélagsins á milli þess sem vélarnar stoppa á áfangastöðum ytra og flogið er til baka með nýja farþega.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en nýlega var tekið upp nýtt verklag hjá fyrirtækinu þar sem aukaleg tiltekt var sett á herðar flugliða sem gagnrýnt hafa að fá ekki greitt sérstaklega fyrir það og segja að slíkt sé ekki í starfslýsingu.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi hjá WOW air segir að kjaraviðræður séu hafnar við flugliða hjá flugfélaginu. „Þetta atriði verður rætt eins og önnur atriði sem snúa að kjaramálum,“ segir Svanhvít. Spurð hvort að einhver sérstök ástæða sé fyrir því að verklagi hafi verið breytt áður en til kjaraviðræðna kom, segir Svanhvít svo ekki vera. „Wow er lággjaldaflugfélag og þetta verklag þekkist hjá öðrum lággjaldaflugfélögum. Við lítum til þeirra þegar við ákveðum verklög og annað,“ segir Svanhvít.

Hún segir einn anga umræðunnar tengjast mismunandi túlkunar á því hvað teljist til þrifa. „Verklagið sem sett var á snýr að því að krossleggja belti, taka rusl úr vösum úr sætisvösum og skipta um ruslapoka úr tunnum inni á salerni og í eldhúsi, sé þess þörf,“ segir Svanhvít. Í þessu samhengi bendir hún á að rétt fyrir lendingu sé gengið með ruslavagn þar sem farþegar geta losað sig við það rusl sem þeir eru með. „Flestir gera það og því er það ekki svo að allir vasar eru fullir af rusli,“ segir Svanhvít.

Hún áréttar að ef einhver þrif séu tilkallandi t.a.m. vegna uppkasta farþega, þá sé kallaður til þjónustuaðili á flugvöllunum sem þrífur. „Það eru fáir flugliðar sem hafa hafnað þessu. Margir hafa tekið vel í þetta,“ segir Svanhvít og áréttar. „Það er ekki undir neinum kringumstæðum verið að fara fram á það að flugliðar þrífi vélina, ryksugi eða annað. Við höfum álitið að þessar skyldur í nýja verklaginu túlkist ekki sem þrif,“ segir Svanhvít.

Að sögn hennar notast Flugfélag Íslands við sama verklag og Wow air, bæði í innanlands- og í Grænlandsflugi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert