Stærðfræði eða blekkingaleikur?

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, gagnrýndi málflutning Ástu Guðrúnar Helgadóttur, þingmanns Pírata, frá því í gær, undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.

Ásta gagnrýndi fyrirhugað LÍN-frumvarp en stjórnarandstaðan hefur mjög verið mótfallin því. Áður hafði Ásta sagt að stjórnarandstaðan myndi koma í veg fyr­ir að LÍN-frum­varp mennta­málaráðherra yrði samþykkt þar sem frum­varpið væri ekki nógu gott.

„Þarna er verið að blekkja þingheim með því að segja að 85% stúdenta kæmu betur út,“ sagði Ásta í gær en þessi ummæli var Illugi óánægður með.

„Hér liggur það undir að nafngreindur einstaklingur, doktor Hrafnkell Kárason, vann greininguna sem lögð var til grundvallar af hálfu ráðuneytisins. Ég kveinka mér ekki persónulega undan því að sitja undir slíkum brigslmælum en ég vil ekki að það standi hér í bókum þingsins að þessi nafngreindi maður, að honum sé brigslað um það að hann hafi með störfum sínum verið að blekkja þingið,“ sagði Illugi.

Ásta sagði enn fremur að útreikningarnir sem lægju til grundvallar frumvarpinu væru bundnir við einhverja galdra. „Það er ekki þannig. Þetta er það sem kallað er í almennu tali stærðfræði og Hrafnkell Kárason er einmitt góður í því fagi,“ sagði Illugi.

Blekkingaleikur

Ásta svaraði Illuga og sagðist ekki hafa nafngreint fólk, nema ef til vill mennta- og menningarmálaráðherra. „Ég hef hins vegar dregið útreikninga sem ráðuneytið tilkynnti sjálft í efa,“ sagði Ásta.

„Þetta eru blekkingar og það er verið að slá ryki í augu kjósenda. Þarna er verið að leika sér með tölur og leika sér með forsendur. Það kom skýrt fram að þetta var gert að beiðni mennta- og menningarmálaráðherra,“ bætti Ásta við.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert