Hafa náð hámarki

Elliðaárnar.
Elliðaárnar. mbl.is/Rax

Flestar ár á Suðurlandi náðu hámarki seint í gærkvöldi en Ölfusá við Selfoss mun væntanlega ekki ná hámarki fyrr en í kvöld eða í fyrramálið. Gott veður er um allt land, að vísu frekar hvasst á norðanverðu Snæfellsnesi en úrkomulaust. Spáin er góð fyrir helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hætti að rigna á Suðurlandi í gærkvöldi og árnar, til að mynda í nágrenni Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls, virðast hafa náð hámarki í gærkvöldi en áfram verður mikið í ánum þar, segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Það skýrist af því að grunnvatnshæðin er enn svo mikil á svæðinu og má búast við því að það muni jafnast út hægt og rólega. 

Undirgöng í Elliðaárdalnum.
Undirgöng í Elliðaárdalnum. mbl.is/Rax

Einar segir að hafi orðið mikið tjón af völdum vatnavaxtanna. Mikið vatn er enn í Hvítá við Fremstaver en þar náði vatnshæðin hámarki um klukkan 23 í gærkvöldi. En það tilheyrir vatnasvæði Ölfusár svo líklega nær Ölfusá við Selfoss ekki hámarki fyrr en í kvöld eða á laugardagsmorgun. Líklegt er að hámarksrennsli Ölfusár við Selfoss geti farið yfir 1.000 m3/s en það gerðist síðast í febrúar 2013.

Ár á Vesturlandi náðu hámarki snemma í gærmorgun. Mjög mikið vatn er í ám við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul eins og t.d. í Krossá, Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Djúpá. 

Mikið vatn er í öllum þverám Hvítár og mjög mikið í Soginu en rennsli þar fór í 250 m3/s og hefur ekki verið jafnmikið síðan 1999. 

Elliðaárnar í gær.
Elliðaárnar í gær. mbl.is/Rax

Þorsteinn Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sé hætt að rigna um nánast allt land og að veðurspáin sé góð fyrir daginn og helgina. Að vísu sé enn hvasst á norðanverðu Snæfellsnesi en engin úrkoma fylgir með rokinu. Vindur gengur þar niður með morgninum. Enn er einhver úrkoma á Vestfjörðum. Á sunnudag fer hins vegar að rigna og hvessa á Austurlandi en að öðru leyti er spáin góð fyrir næstu daga.

Veður á mbl.is

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðaustan 10-18 m/s í fyrstu, hvassast V-lands, en dregur síðan úr vindi. Dálítil rigning eða skúrir V-lands, en annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Suðlæg átt, 8-13 m/s V-til síðdegis, en annars hægari austlæg átt. Léttskýjað NA-lands í dag, en skýjað með köflum og dálitlar skúrir í öðrum landshlutum. Hægir vindar og skýjað með köflum á morgun, en stöku skúrir S- og V-til. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast NA-til.

Á laugardag:
Hægviðri og bjart með köflum, en austan 5-10 m/s og stöku skúrir við S-ströndina. Hiti 3 til 10 stig, svalast inn til landsins.

Á sunnudag:
Austlæg átt, 5-10 m/s og rigning með köflum S- og A-lands, en annars hægviðri og bjart. Hiti 0 til 8 stig að deginum, svalast í innsveitum.

Á mánudag:
Fremur hæg suðlæg átt og skúrir, en þurrt að kalla fyrir norðan. Áfram fremur svalt í veðri.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt og stöku skúrir, en hvessir og fer að rigna S- og V-til um kvöldið. Hlýnar dálítið.

Á miðvikudag:
Ákveðin sunnanátt með talsverðri rigningu, einkum S-til og hlýnar í bili.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðvestanátt með skúrum, en birtir til fyrir austan. Kólnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert