Nauðgaði tveimur stúlkum

AFP

Ingvar Dór Birgisson var í fyrradag dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa nauðgað 14 ára gamalli stúlku. Fyrir ári síðan var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga 14 ára gamalli stúlku árið 2010.

Samkvæmt ákæru í nauðgunarmálinu sem dæmt var í 12. október  fékk Ingvar Dór stúlkuna til að koma og hitta sig meðal annars með því að segja henni að svo lengi sem hún kæmi og hitti hann myndi hann ekki birta af henni myndir á netinu sem sýndu hana nakta að hluta. Þegar stúlkan kom heim til hans nýtti hann sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar og haft við hana samræði í leggöng, hélt henni niðri í rúminu þegar hún reyndi að fara í burtu og í framhaldinu látið stúlkuna hafa við sig munnmök.

Samskiptin hófust á samfélagsmiðlum

Stúlkan leitaði til lögreglu ásamt móður sinni í fyrra og þar greindi hún frá samskiptum við Ingvar Dór á netinu í gegnum Skype, Facebook, Snapchat og í síma. Hafi samtöl þeirra verið af kynferðislegum toga sem hafi þróast þannig að hann hafi þrýst á hana að senda sér „flassmyndir“, þ.e. myndir sem sýni nekt. Kvað hún hann hafa sent sér myndir líka, m.a. af kynfærum. Þá hafi hann þrýst á hana um að hitta sig á dvalarstað hans og kvaðst myndu setja myndirnar af henni á netið að öðrum kosti. Hafi hann áður en að því kom lýst því í samtölunum hvaða kynferðislegu athafnir hann hugðist framkvæma með henni en stúlkan greindi honum frá því að hún hefði ekki haft samræði áður. Stúlkan kvað Ingvar hafa vitað að hún var 14 ára á þessum tíma en hann hafi verið 29 ára.

Millifærði fyrir strætófargjaldi

Hann hefði leiðbeint henni hvernig hún kæmist til hans og greitt fargjald hennar í strætisvagn með millifærslu í heimabanka. Hefði hún komið með strætisvagni að heimili hans síðdegis.  Hún lýsti því að Ingvar hefði haft samræði við hana þar og jafnframt hefði hann beðið hana um að hafa við hann munnmök sem hún og gerði. Að þessu loknu hafi hann sótt skóna hennar á neðri hæðina, beðið hana að læðast út svo að leigusalinn heyrði ekki í þeim og labbað með henni á strætisvagnastoppistöð. Hafi hann þurft að mæta í vinnu kl. 18:00. Þá hafi hann gefið henni peninga fyrir farinu heim. Taldi hún sig hafa verið á heimili hans frá kl. 17:00-17:30.

Þegar stúlkan sagði vinkonum sínum frá þessu þá hafi önnur þeirra hvatt hana til  að segja frá því sem gerðist. Hafi hún ekki gert sér grein fyrir því fyrr en hún fór að ræða við hana að um nauðgun væri að ræða. Hún hafi hins vegar í fyrstu ekki þorað að segja neinum fullorðnum frá strax.

Taldi að einhver hefði hakkað sig inn á Skype-reikninginn

Við fyrstu yfirheyrslu neitaði Ingvar  því alfarið að hann hefði haft samræði við stúlkuna. Kannaðist hann við að hafa hitt hana einu sinni stuttlega fyrir tilviljun í [...] á leið sinni til vinnu. Skömmu áður hefði hann lánað henni peninga fyrir strætó með millifærslu á reikning hennar en hún hafi viljað komast í bæinn. Þegar hann framkvæmdi millifærsluna hafi hann séð að hún var fædd árið 1999 og því ekki 15 ára.

Hann kvað þau hafa átt í samskiptum á Skype en hann myndi ekki nákvæmt innihald þeirra og lítið eftir einhverju kynlífstengdu. Þá hafi hún „addað“ honum á Snapchat. Einhverjar myndsendingar hafi átt sér stað, einkum á þeim miðli, en hann myndi ekki hvort það hefðu verið nektarmyndir. Hann hafi hins vegar aldrei sent henni nektarmyndir. Þá kvaðst hann ekki hafa átt í samskiptum á Facebook og kannaðist ekki við notandanafnið Ingvar Winchester. Samskipti hans og brotaþola hafi hætt eftir að hann kom til Taílands. Ákærði taldi líklegt að einhver hefði „hakkað“ sig inn á Skype-reikninginn hans.

Viðurkenndi opinská kynferðisleg samtöl við stúlkuna

Við næstu yfirheyrslu hélt hann við sinn fyrri framburð en viðurkenndi að hafa átt opinská kynferðisleg samtöl við stúlkuna á Skype. Í þeirri yfirheyrslu kom fram að hann hygðist fara af landi brott og stóð því til að fara fram á farbann yfir honum þann 10. desember 2014. Hins vegar kom í ljós að Ingvar hefði farið af landi brott snemma morguns þann dag til Amsterdam. Var því samdægurs farið fram á að Héraðsdómur Reykjavíkur gæfi út handtökuskipun á hendur honum. Féllst dómurinn á það og var hann handtekinn í kjölfarið við komu til Amsterdam og framseldur þaðan 16. júní 2015. Þann sama dag var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald en á þeim tíma beið Ingvar dóms Hæstaréttar í máli þar sem honum var gefið að sök kynferðisbrot gagnvart 14 ára stúlku á árinu 2010.

Fjölskipaður dómur telur sannað, með vísan til rannsóknar lögreglu á tölvu Ingvars og með stoð af framburði manns sem kynntist Ingvari í Taílandi 2013 eða 2014 en þeir hafi m.a. farið saman í svokallað „clean the beach boot camp“. Hann kannaðist við að hafa verið í samskiptum við Ingvar á Skype og hafi notandanafn hans verið steinip. Kvað vitnið ákærða hafa notað nafnið Ingvar Winchester á Facebook og útskýrði vitnið skírskotunina til Winchester sérstaklega. Vitnið kvaðst ekki muna eftir samtali þeirra á Skype í dag en kvað ljóst að Ingvar hefði viljað fara huldu höfði á Facebook vegna þess máls sem þá var í gangi. 

Tölvan hrundi og hann því straujað hana

Við yfirheyrslur kannaðst Ingvar ekki kannast við notandanafnið Ingvar Winchester á Facebook eða þau samskipti sem borin voru undir hann. Hann kannaðist við samskipti við stúlkuna á Skype  2014 en taldi þau styðja að hann væri ekki Ingvar Winchester á Facebook. Spurður að því hvers vegna þar komi fram að hann hefði „straujað“ tölvuna sína í sumar kvað hann það vera því hún „hrundi“ hjá honum og hann misst allt sem hann átti.

Fullorðinn maður talar við reynslulitla unglingsstúlku

Lögreglan afritaði Skype-samskipti stúlkunnar við ingvardor af tölvu stúlkunnar. Þessi samskipti, sem ná yfir langt tímabil, voru svo til öll á kynferðislegum nótum. Af þeim verður ráðið að hún sendi Ingvari fjölda mynda af sér fáklæddri eða nakinni. Telur dómurinn fullsannað að þessi samskipti voru á milli Ingvars og stúlkunnar eins og hún hefur borið um en um þetta ber hann fyrir sig minnisleysi. Dómurinn telur ótrúverðugt að Ingvar muni ekki eftir samskiptum sínum við stúlkuna ekki síst í ljósi þess að hann gat vel gert grein fyrir öðrum samtölum sem hann átti um svipað leyti.

„Samskipti þessi bera glöggt með sér að fullorðinn maður talar við reynslulitla unglingsstúlku. Hið kynferðislega tal er einhliða af hans hálfu og hann stýrir því alfarið. Hann þrýstir á brotaþola með vaxandi þunga og er tilgangurinn sá að sannfæra hana um að hún eigi að koma og eiga sín fyrstu kynferðismök með honum.

Ljóst er að brotaþoli upplifir þessa athygli hans fyrst á jákvæðan hátt en er þó óörugg og nokkuð á varðbergi. Þegar ákærði verður ágengari og grófari fer brotaþoli undan í flæmingi og lætur ákærði þá óánægju sína í ljós.

Kom að því að hann benti henni ítrekað á [...] 2014 að hann hefði í fórum sínum nektarmyndir af henni sem færu ekki á netið svo lengi sem hún hitti hann. Kom þá fram hjá brotaþola að hann hefði ekki hugmynd um hvað henni liði illa en ákærði sannfærði hana um að þau myndu vera saman þótt þau hefðu samræði í fyrsta skiptið sem hann hitti hana. Þann [...] 2014 kemur fram í spjalli þeirra að þau muni hittast næsta dag. Þá spyr brotaþoli hann nánar um hvað hann vilji gera.

Hann svarar: „setja eh kósý mynd á sem þú færð að velja, spjalla, kúra, kyssa og svo það gerist sem gerist.“ Kvaðst hún vilja það sama. Þá kemur fram hjá ákærða að ef henni finnist óþægilegt það sem gert verði þá lofi hann að stoppa. Biður brotaþoli hann þá sérstaklega um að gera ekki eitthvað sem hún ekki vilji. Svarar hann því til að hún verði að vera jákvæð, ef eitthvað gerist þá eigi hún að leyfa því að gerast en ekkert slæmt geti gerst. Sendir brotaþoli þá lyndiskarl (emoji) sem túlkaður hefur verið sem sá sem sýnir engin tilfinningaleg viðbrögð,“ segir í niðurstöðu þriggja héraðsdómara.

Ingvar var í Hæstarétti fyrir ári síðan dæmdur þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga 14 ára gamalli stúlku.

Frétt mbl.is: Þrjú og hálft ár fyrir nauðgun

Nauðgunin sem hann er dæmdur fyrir núna var framin fyrir uppkvaðningu þess dóms og því ber að dæma honum hegningarauka. Við ákvörðun refsingar er til þess litið að brot Ingvars beindist að 14 ára stúlku. Brot hans var gróft og ófyrirleitið en auk þess að vera dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi er Ingvar dæmdur til að greiða stúlkunni 1,2 milljónir króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert