Þurfti að nota gögn í tölvunni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hló upphátt þegar ég sá fyrirsögn RÚV um stóra tölvumálið,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, á Facebook-síðu sinni í dag. Vísar hann þar til fyrirsagnarinnar: „Vildi ekki láta skipta um disk sýktu tölvunnar“.

Sigmundur segist alls ekki hafa verið mótfallinn því að fá víruslausa tölvu eftir að tölvan hans hafi fengið tölvuvírus sem hann telur að hafi verið tölvuárás. „Ég þurfti hins vegar að nota gögn úr tölvunni svo það varð að bíða. Tölvan var því aftengd internetinu og loks tekið af henni rafmagn til öryggis.“ Hann gagnrýnir fréttaflutning Ríkisútvarpsins af málinu.

Frétt mbl.is: Sá ekki ástæðu til að skipta um disk

„Fyrst eftir að ég nefndi tölvuinnbrotið í framhjáhlaupi í klukkutímalangri ræðu var áherslan öll á að gera málið sem ótrúverðugast. M.a. voru sagðar fréttir af því að tal um tölvuinnbrot líktist vísindaskáldsögu. Slíkar efasemdir voru ekki til staðar þegar sami fjölmiðill sagði frá því að brotist hefði verið inn í tölvur forsætisráðherra Ástralíu og annarra ráðherra (líklega til að leita upplýsinga um námuvinnslu í landinu) eða þegar sagt var frá innbrotum í tölvur bandarískra stjórnmálamanna, m.a. Demókrataflokksins.“

Þegar sýnt hafi verið fram á það rétta í málinu sé gefið í skyn að honum „hafi bara þótt ljómandi gott að vera með sýkta tölvu eða ekki talið trúverðugt að brotist hafi verið inn í tölvuna (e.t.v. talið að slíkt tal væri nú bara eins og upp úr vísindaskáldsögu). Hvað kemur næst? Ég bíð spenntur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert