Afhenti forsetamerkið í fyrsta sinn

27 rekkaskátar úr 13 skátafélögum fengu í dag afhent forsetamerki skátahreyfingarinnar af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, við hátíðlega athöfn í Bessastaðkirkju.

Er þetta í fyrsta sinn sem nýkjörinn forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir forsetamerkið en hann er verndari skátahreyfingarinnar. Því afhenti Bragi Björnsson, skátahöfðingi, Guðna forsetamerkið úr gulli í upphafi athafnarinnar.

Mikill heiður fyrir skáta

Í tilkynningu frá skátahreyfingunni segir Bragi það mikinn heiður fyrir skáta að Guðni hafi fallist á að vera verndari skátahreyfingarinnar og þannig halda við þeirri hefð sem afhending forsetamerkisins hefur verið í skátastarfinu.

Bragi segir forsetamerkið veitt þeim skátum sem um 18 ára aldur hafa stundað fjölbreytt og krefjandi skátastarf um að minnsta kosti tveggja ára skeið og haldið um það dagbók sem þeir leggja fram starfi sínu til staðfestingar.

Fyrst afhent árið 1965

Forsetamerkið var fyrst afhent 24. apríl 1965 af Ásgeiri Ásgeirssyni, þáverandi forseta Íslands. Allar götur síðan hefur forsetamerkið verið afhent árlega í Bessastaðakirkju. Að sögn Braga hafa 1.359 skátar hloti forsetamerkið og bætast nú 27 í þann hóp.

Fríður Finna Sigurðardóttir, læknir og aðstoðarskátahöfðingi, flutti hugvekju við athöfnina í dag.

Þeir sem fengu forsetamerkið í ár eru eftirtaldir:

  • Hafdís Jóna Sigurjónsdóttir, Árbúar.
  • Ari Björn Össurarson, Arnkell Ragnar Ragnarson, Birgir Þór Brynjarsson og Eydís Líf Þórisdóttir, Fossbúar.
  • Birna Ösp Traustadóttir, Jóhanna María Ásgeirsdóttir og Magnús Geir Björnsson, Klakkur.
  • Daney Harðardóttir, Sigurður Guðni Gunnarsson og Katrín Kemp Stefánsdóttir, Kópar.
  • Birta Ísafold Jónasdóttir, Andrea Dagbjört Pálsdóttir, Fanney Guðmundsdóttir, Hjörtur Már Markússon, Ísak Árni Eiríksson Hjartar og Salka Guðmundsdóttir, Mosverjar.
  • Egle Sipaviciute, Landnemar.
  • Valdís Mist Óðinsdóttir, Hraunbúar.
  • Sunna Líf Þórarinsdóttir, Segull.
  • Guðný Rós Jónsdóttir, Skátafélag Akraness.
  • Anna Margrét Þorsteinsdóttir, Skátafélag Borgarness.
  • Halldór Valberg Skúlason, Svanir.
  • Arnar Breki Eyjólfsson, Huldar Hlynsson og Guðbjörg Lilja Sveinsdóttir, Vífill.
  • Signý Kristín Sigurjónsdóttir, Ægisbúar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert