Þurftu að keyra til baka í samband

Bílaleigubíllinn hafði verið yfirgefinn við komu sveitarinnar.
Bílaleigubíllinn hafði verið yfirgefinn við komu sveitarinnar. Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar

Björgunarsveitin Heiðar var kölluð út í gær vegna ferðamanna sem fastir voru við vaðið yfir Mjódalsá, inn af Langavatnsdal. Þegar sveitin kom þangað beið hennar aðeins harðlæstur bíll og engir ferðamenn.

Arnar Grétarsson, meðstjórnandi hjá björgunarsveitinni, segir í samtali við mbl.is að illa hafi þá gengið að ná Tetra-sambandi, en Tetra er stafrænt talstöðvarkerfi sem björgunarsveitirnar notast við, sérsniðið að þörfum viðbragðsaðila.

Náðist þó að lokum samband við Björgunarsveitina Brák í Borgarnesi, sem fengin var til að hitta á leitarmenn Álfthreppinga sem þá voru í smalamennsku, og athuga hvort ferðamennirnir væru hjá þeim.

Þrjár björgunarsveitir kallaðar út

„Engin önnur leið var fær til að ná í smalamennina, vegna skorts á fjarsímasambandi,“ segir Arnar. Björgunarsveitin Ósk í Búðardal var þá einnig beðin um að koma að Sópandaskarði til að athuga hvort fólkið hefði gengið þangað.

Loks kom þó í ljós, þegar liðsmenn Brákar fundu smalana, að ferðamennirnir höfðu slegist í för með þeim. Þá þurftu þeir þó að aka til baka í fjarskiptasamband svo hægt væri að láta hinar sveitirnar vita, svo þær gætu haldið heim á leið.

Bifreið ferðamannanna sat föst við vaðið yfir ána.
Bifreið ferðamannanna sat föst við vaðið yfir ána. Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar

Sífellt fleiri á gangi um svæðið

Arnar segir lærdóm þessa útkalls vera þann að það bráðvanti að koma upp fjarskiptasambandi á svæðinu. Þá sé vandinn sérstaklega aðkallandi þar sem sífellt fleiri gönguhópar gangi vatnaleiðina svokölluðu, frá Hítarvatni að Langavatni og svo yfir til Hreðavatns.

Ferðamennirnir voru á bílaleigubíl, sem sat fastur við vaðið yfir Mjódalsá, eins og áður var greint frá.

„Það er svo annað atriði, að þeir höfðu ekkert að gera á þessum vegi. En kortaforritin eru því miður þannig, að það eru allir malarvegir góðir,“ segir Arnar og bendir á að sum kort geti sýnt að stysta leiðin yfir landið, frá Reykjavík til Egilsstaða, sé yfir Kjöl.

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert