Aðrir lekar og engir felustaðir

Íslenska þjóðin á við vandamál að stríða, að sögn Evu Joly. Vandamálið eru 600 nöfn Íslendinga í Panama-skjölunum. Joly segir almenning þurfa að taka ráðin í sínar hendur þar sem stjórnmálamennirnir hafi brugðist.

Þetta kom fram í viðtali Kastljóss við Joly, sem birt var á RÚV í kvöld.

Joly, fulltrúi franskra græningja á Evrópuþinginu og fyrrum ráðgjafi sérstaks saksóknara, var meðal framsögumanna á málþingi Pírata í Norræna húsinu í dag, sem bar yfirskriftina Heimurinn eftir Panamaskjölin.

Í viðtalinu við Kastljós sagði hún hneykslismál tengd bönkum hafa sýnt fram á að lýðræðið virkaði ekki lengur vegna spillingar og fjölþættra eiginhagsmuna. Áherslan væri ekki lengur hagur almennings.

Spurð að því hvað henni fyndist um útskýringar stjórnmálamanna sem hefðu gerst uppvísir að því að eiga aflandsfélög sagði Joly orðræðuna þar sem menn segðust ekki hafa gert neitt ólöglegt þá sömu og notuð væri af fyrirtækjum sem greiddu ekki skatta.

Þetta er það sem þeir segja, en við þurfum ekki að trúa því, sagði hún.

Joly sagði að rannsaka þyrfti mál þessara einstaklinga því þegar fólk stofnaði aflandsfélög og greiddi þjónustuaðilum fyrir milligöngu til að fela sig, væri ekki um að ræða lögmæta gjörninga. Hún sagði að ef til vill væri ekkert ólöglegt á ferðinni en að eðlilega vöknuðu efasemdir og að almenningur ætti að hafa aðgang að upplýsingum um téð félög.

Hún sagði að á Íslandi hefði valdinu verið misbeitt.

En er eitthvað sem við getum gert?

Já, svaraði Joly. Hún sagði tímana vera að breytast og að þeir einu sem hefðu ekki skilning á því væru þeir sem væru að notast við aflandsfélög og þeir sem þjónustuðu þá. Hún sagði að leita þyrfti svara við því hvernig það gat gerst að gríðarmiklir peningar rynnu í skúffufyrirtæki þrátt fyrir þá löggjöf sem reist hefði verið því til varnar.

Joly sagði marga eiga hagsmuna að gæta og að spillingin væri mikil. Mál horfðu hins vegar til batnaðar og íslenska þjóðin gæti treyst því að þetta myndi breytast; það yrðu aðrir lekar og engir staðir til að fela peningana.

Í viðtalinu kom Joly inn á niðurstöðu evrópskra yfirvalda í máli Apple, þar sem fyrirtækið var dæmt til að greiða milljarða í skatta, afturvirkt. Hún sagði að í valdatíð Jean-Claude Juncker, þáverandi forsætisráðherra Lúxemborgar, hefði kerfi verið komið á þar sem skatttekjur voru hirtar frá öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Joly sagði að málið gegn Apple hefði borið árangur því það var skoðað frá samkeppnissjónarmiðum, þ.e. að fyrirtækið hefði komist upp með að greiða lægri skatta en önnur fyrirtæki. Hvatti Joly til þess að önnur ríki gerðu álíka rannsóknir.

Sagði hún almenning ekki vilja búa í heimi þar sem fjármálakerfin og stórfyrirtækin hefðu yfirtekið lýðræðið.

Joly sagði Panamaskjalalekann og Lúxemborgarlekann hafa varpað ljósi á falinn heim aflandsfélaganna. Með því ljósi væri hægt að breyta heiminum. Hún sagði Íslendinga einstaka þjóð; menntaða, fámenna og lýðræðislega sinnaða. Vonandi hæfust breytingarnar hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert