Auglýsir eftir talnaglöggum manni fyrir Hafnarfjarðarbæ

Lýst eftir talnaglöggum manni fyrir Hafnfirðinga.
Lýst eftir talnaglöggum manni fyrir Hafnfirðinga.

„Ég hef sýnt því skilning að menn rukki gjald ef gámum er hlammað fyrir utan íbúðarhús en við sem erum með atvinnurekstur þurfum að hafa ákveðið svigrúm til að reka okkar starfsemi,“ segir Örn Gunnlaugsson, eigandi fyrirtækisins Bindir og stál, en hann auglýsti í smáuglýsingum í Morgunblaðinu á laugardag eftir skörpum teljara til að þjálfa hafnfirska embættismenn í talningu á gámum. „Gerð er krafa um að viðkomandi geti talið rétt upp að einum á innan við klukkutíma,“ segir í auglýsingunni.

Auglýsinguna má rekja til gjalds sem Hafnarfjörður ákvað í ársbyrjun að rukka, á fjórða tug þúsunda króna fyrir hvern gám sem stendur óhreyfður í tvo mánuði.

Örn er ósáttur við gjaldið en hann var rukkaður fyrir 15 gáma og leitaði þá skýringa á gjaldinu. „Upphafsgjald er 11.377 kr. og tveir tímar eru áætlaðir í talningargjald á hvern gám, 10.201 kr. á klukkustund,“ segir hann. „Og til að kóróna allt saman tókst talnasnillingnum að telja 15 gáma þar sem þeir voru aðeins 13 og þar að auki ekki allir á mínum vegum.“

Örn segir gáma bjóða upp á snyrtilegra umhverfi en að láta vörur og búnað liggja úti. Víða í nágrenni við hann séu númerslausir bílar á plönum sem sleppa við sektir. „Hvaða dekkjastærð þarf ég að setja á gámana hjá mér?“ spyr Örn glettinn.

Hann hefur engin svör fengið frá kjörnum fulltrúum við fyrirspurnum sem hann hefur sent vegna málsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert