Með stöðu sakbornings í þremur málum

Lárus Welding mætir til aðalmeðferðar við Aurum málið í morgun.
Lárus Welding mætir til aðalmeðferðar við Aurum málið í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Ef fram heldur sem horfir mun ekki fást niðurstaða í öll þau mál sem tengjast Lárusi Welding og Glitni fyrr en eftir árið 2020. „Það er heill áratugur.“ Þetta sagði Lárus í framsögu sinni í Aurum-holding málinu í dag. Sagði hann jafnframt að enn væri til rannsóknar 3 mál hjá héraðssaksóknara þar sem hann hefði stöðu sakbornings.

Rifjaði hann upp að umfjöllun um þetta mál og önnur hrunmál hefði verið óvægin, en hann hefði tekið þá afstöðu að tjá sig ekki við fjölmiðla heldur fá tækifæri í dómsalnum til að flytja sitt mál. Sagði hann að í dómsalnum teldi hann sig hafa möguleika á að leiðrétta slíka hlutdrægni. „Hér eiga staðreyndir að skipta máli,“ sagði Lárus.

Sagði hann ásetning sinn aldrei hafa verið annan en það sem best væri fyrir bankann og að hann hafi sjálfur aldrei haft persónulegan ávinning af gengi bankans. Hann hafi til dæmis ekki átt hlutabréf í honum.

Lárus hafði áður en hann tók við stöðu bankastjóra hjá Glitnis hafa starfað í um 10 ára í íslenska bankakerfinu. Aldrei á þeim tíma hefði hann heyrt um umboðssvik og honum væri enn óljóst hvaða reglur hann hafi átt að brjóta í þessu máli. Sagði hann rannsókn saksóknara í þessum málum örugglega hafa kostað milljarða og endað hafi verið á því að útvíkka umboðssvikahugtakið og beita fyrir sér öfugri sönnunarbirgði.

Rifjaði hann upp að lánið sem um ræddi hafi verið upp á 6 milljarða, en það hafi verið um 0,03% af útlánum bankans á þessum tíma. „Ákvörðunin hér hefur ekkert með fall Glitnis að gera,“ sagði Lárus.

Sagði hann málið í raun vera um eina spurningu og eitt svar. Hvort rangt hafi verið að meta verðmæti Aurum-holding upp á 4 milljarða, en bréf félagsins voru notuð sem veð við lánveitinguna til félagsins FS38. Sagði Lárus að bankinn hafi áður haft meiri ótryggð útlán en eftir lánið og því telji hann ákvörðunina hafa vera rétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert