Ódýrara að dæma kvennaleiki

Hafrún Kristjánsdóttir skoðar jafnrétti í íþróttum.
Hafrún Kristjánsdóttir skoðar jafnrétti í íþróttum.

Dómarar fá lægri laun fyrir að dæma leiki kvenna í körfubolta en karla. Þetta kom fram í erindi Hafrúnar Kristjánsdóttur, lektors við íþróttafræðisvið tækni- og verkfræðideildar í Háskólanum í Reykjavík, þegar hún kynnti viðamikla rannsókn á jafnrétti í íþróttum á Jafnréttisdögum í HR í dag.

Auk Hafrúnar standa  að rannsókninni þau Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild HR, og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt við íþróttafræðisvið HR.

„Við ætlum að byrja á því að skoða í boltaíþróttir; handbolta, fótbolta og körfubolta,“ segir Hafrún en tekur fram að þau eru að hefja rannsóknina og því eigi margt eftir að koma í ljós.

Ástæðan fyrir því að þessar greinar eru skoðaðar er sú að þetta eru þær hópíþróttir sem flestir iðka á Íslandi.  Á meðal þess sem verður skoðað er til dæmis launamunur kynjanna, menntun og reynsla dómara og þjálfara, æfingaaðstaða, kynjahlutfall í stjórnum íþróttafélaga, umfjöllun fjölmiðla og svona mætti lengi telja.  

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að gera ítarlega úttekt á stöðu jafnréttismála í íþróttum á Íslandi. Ef vel heppnast til verður framhaldsrannsókn gerð þar sem jafnréttismál innan annarra íþróttagreina hérlendis verða tekin til skoðunar. 

Fáar úttektir hafa verið gerðar á kynjajafnrétti í íþróttum á Íslandi. Þær úttektir sem gerðar hafa verið, hafa ekki verið yfirgripsmiklar. 

Körfuboltadómarar fá meira greitt fyrir að dæma leiki karla en …
Körfuboltadómarar fá meira greitt fyrir að dæma leiki karla en kvenna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjár spurningar

Í stuttu máli leitast verkefnið við að svara þremur meginrannsóknarspurningum. Í fyrsta lagi, hvaða reglur gilda um jafnrétti kynjanna í íþróttum? Í öðru lagi, leggja styrktaraðilar, hvort sem er hið opinbera eða einkaaðilar, jafnréttisviðmið til grundvallar fjárveitingum til íþróttasambanda og -félaga? Og í þriðja lagi, hver er staða jafnréttismála innan íþróttasambanda og -félaga?

Rannsóknin hefur hlotið styrk frá frá Jafnréttissjóði og Íþróttasjóði.

Reiknað er með fyrstu niðurstöðum á næsta ári en áætlað er að rannsóknin í heild taki um tvö ár í vinnslu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert