Setti málin upp „the Bonus way“

Jón Ásgeir ásamt verjendum í Aurum-málinu í héraðsdómi í dag.
Jón Ásgeir ásamt verjendum í Aurum-málinu í héraðsdómi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Saksóknari notaði tíma sinn við skýrslutöku yfir Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, í Aurum-málinu að miklu leyti til að fara yfir tölvupóstsamskipti í tengslum við lánveitingu Glitnis til félagsins FS38. Fjárhæðin var að hluta til notuð til að kaupa hlut Fons í Aurum-skartgripakeðjunni og voru bréf félagsins veðsett á móti. Saksóknari hefur talið bréfin vera ofmetin af stjórnendum Glitnis, en á móti telja ákærðu í málinu að bankinn hafi með láninu bætt tryggingarstöðu sína gegn Fons.

Meðal ákærðu í málinu er Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var á þessum tíma einn af stærri eigendum í Glitni í gegnum félög sem hann átti eða voru í eigu tengdra aðila. Var hann ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum, en þannig er því haldið fram að hann hafi komið að lánamálum Glitnis sem skuggastjórnandi. Þessum meinta þrýstingi neitaði Lárus við skýrslutöku. „Ef eitthvað er leiddi þetta til þess að menn fóru harðar fram,“ sagði hann um það hvernig bankinn átti í viðskiptum við eigendur.

Slepptu láni til Fons en hækkuðu heimild Jóns Ásgeirs

Í skjölum sem sýnd voru í dómsal kom meðal annars fram að í febrúar 2008 hafi Fons óskað eftir kúluláni upp á 1 milljarð sem ætti meðal annars að standa straum af greiðslum Fons til annarra aðila. Í stað þess að veita lánið kemur fram að lánanefndin veiti viðskiptastjóra heimild til að hækka heimild Jóns Ásgeirs hjá bankanum um 250 milljónir ef þess þarf.

Þá varpaði saksóknari upp tölvupósti frá Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Baugs, þar sem hann lagði til að Glitnir myndi kaupa hlut Pálma Haraldssonar í Aurum (Pálmi var eigandi Fons) upp á 6 milljarða. Kom fram að þetta myndi fara upp í tryggingargöt Pálma við bankann upp á 3 milljarða og þá væru aðrar skuldbindingar Pálma upp á 0,8 milljarða gerðar upp. Að lokum að með láninu fengi Pálmi 2,2 milljarða í lausafé. „Með þessu eru gerð upp öll mál vegna PH og Stím og allar skuldbindingar PH við Glitni eru þá komnar í lag,“ sagði í póstinum.

Vildi fara varlegar í lánveitingu til Fons

Spurði saksóknari Lárus hvort Pálma hafi verið lofað skaðleysi í málinu. Svaraði Lárus því neitandi og benti á að Pálmi hafi gefið upp verðmæt bréf í Aurum á þessum tíma með veðum.

Lárus Welding og verjendur.
Lárus Welding og verjendur. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmaður Glitnis sendi svo í maí bréf af hálfu Lárusar til viðskiptastjóra Jóns Ásgeirs. Þar sagði hann að Lárus vildi gjarnan skoða málið en að 2,2 milljarða í lausafé til Pálma væri of mikið. Lagði hann til að 1 milljarður færi í niðurgreiðslu á skuldum við Glitni. „Þurfum að gæta okkur að lána ekki svona mikið,“ segir í póstinum.

„Verkefnalistinn“ frá Jóni Ásgeiri

Jón Ásgeir sendir síðar póst á Lárus Welding sem saksóknari sagði vera verkefnalista. Þar var meðal annars talað um að klára þyrfti Goldsmith (sem var nafn á Aurum áður fyrr) málið. Segist hann þar þurfa 250 milljónir til að borga yfirdrátt hjá Glitni. Segir hann „prinsip mál“ að vera ekki með persónulegar skuldir á sér. Nefnir hann auk þess fjögur önnur mál sem þurfi að klára. Lárus tók fyrir að þetta væri skipun af hálfu Jóns Ásgeirs.

Í öðru bréfi sendi Jón Ásgeir póst til Lárusar og Bjarna Jóhannessonar, viðskiptastjóra síns hjá Glitni, þar sem hann tók fram að í póstinum væru þau mál sem hann væri að bögga þá með, „í tekjuöflun fyrir bankann“. Sagðist hann setja málin upp „the Bonus way“ svo hægt væri að klára þau með einföldum hætti.

Jón Ásgeir með „óvenjulegan samskiptamáta“

Sagði Jón Ásgeir í póstinum að hann nennti ekki að „bögga“ starfsmenn Glitnis á hverjum degi þar sem hann ætlaðist til að forstjórar félaganna sem um ræddi myndu vinna sína vinnu. Ef þessum málum væri komið á hreint væri borðið hans aftur á móti hreint. „Annars kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB :)“ segir Jón Ásgeir í póstinum.

Listaði hann meðal annars upp „Goldsmith v/Fons“ sem þyrfti að klára í vikunni. Þá voru fimm önnur mál á listanum. Saksóknari spurði út í þennan póst og sagði Lárus að Jón Ásgeir væri með „óvenjulegan samskiptamáta“.

Settir í erfiða stöðu

Þá sýndi saksóknari póstsamskipti milli Lárusar og Einars Arnar Ólafssonar, sem hafði verið framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Glitnis. Þar áframsendi Lárus póst um áætlanir Jóns Ásgeirs til Einars og segir Einar í framhaldinu: „Mér finnst hinn góði eigandi okkar aðeins setja þig í erfiða stöðu með þessum mail. Goldsmith er t.d. virði 1,5 en ekki 4,0 o.s.frv. En ég geri allt sem þú segir mér að gera.“

Ólafur Hauksson saksóknari og Helgi Sigurðsson, verjandi í málinu.
Ólafur Hauksson saksóknari og Helgi Sigurðsson, verjandi í málinu. Árni Sæberg

Svarar Lárus honum til að þetta séu „bakhjarlarnir sem ýta manni af brúninni“ og að hugsa verði málið í lausnum. Þegar saksóknari spurði um þessi samskipti svaraði Lárus því til að þarna hafi Jón Ásgeir væntanlega verið farinn að gera starfsmenn bankans „geðveika“. Hann tók þó fram að fullt af fólki hafi farið í taugarnar á sér og öðrum.

Ekki ákærður fyrir stafsetningarvillur

Lárus var einnig spurður út í tölvupóstsamskipti milli Jóns Ásgeirs, sín, Bjarna og Pálma varðandi tillögu Jóns um að Fons myndi halda hlut sínum í Goldsmith. Lárus sagðist ekki vita nákvæmlega hvað hann væri að meina þarna. „svo eru þarna stafsetningarvillur,“ sagði Lárus. Skaut saksóknari þá inn: „Já hann verður ekki ákærður fyrir þær,“ og uppskar smá hlátur í salnum.

Saksóknari spurði hann svo út í hvers vegna Jón Ásgeir og Baugur væru að reka mál Fons hjá bankanum. Sagði Lárus að mikið samkurl hafi verið milli Baugs og Fons og Baugur hafi oft séð um ýmiss konar ráðgjöf fyrir Fons.

Skildi ekki af hverju Pálmi fengi ekki beint 2 milljarða lán

Í öðrum pósti frá Pálma til Jóns Ásgeirs, Bjarna og Lárusar segir Pálmi að Fons hafi eitt tekið á sig „FS38 ævintýrið. Það finnst mér nú nokkuð ósanngjarnt.“ Sagði hann Glitni geta gefið eftir vextina í málinu. „Annað er ósanngjarnt.“

Að lokum vísaði saksóknari til pósts frá Einari Erni til Lárusar þar sem Einar sagðist viðurkenna að hann skildi ekki af hverju Glitnir lánaði ekki Pálma beint 2 milljarða „til að koma fyrir á Caymann“ áður en hann færi á hausinn í stað þess að standa í öllum þessum flækjum tengt FS38.

Spurður um þessi orð Einars sagðist Lárus ekki skilja þennan póst. Sagði hann Einar væntanlega hafa verið ölvaðan þegar hann skrifaði þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert