Tekist á um verðmat og ástæður láns

Aðalmeðferð í Aurum-holding-málinu hófust í morgun. Þetta er annað skiptið …
Aðalmeðferð í Aurum-holding-málinu hófust í morgun. Þetta er annað skiptið sem málið er tekið fyrir í héraðsdómi. mbl.is/Árni Sæberg

Við lánveitingu til félagsins FS38 til kaupa á hlut Fons í Aurum holding upp á 6 milljarða sniðgengu yfirmenn bankans að tekin yrði ákvörðun í áhættunefnd og var lánið meðal annars hugsað til hagsmuna fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson og Fons. Þetta kom fram í framsögu Ólafs Haukssonar héraðssaksóknara við aðalmeðferð Aurum-málsins í dag. Sagði Ólafur að ljóst væri að Bjarni Jóhannesson, sem var starfsmaður bankans en kom ekki beint að ákvörðun um lánið, hefði vitað að áhættan væri veruleg og hætta á að fjármunir myndu tapast fyrir bankann.

Síðar hélt Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri, framsögu þar sem hann rifjaði upp málsmeðferðina gegn sér og þann mikla tíma sem hefur liðið síðan meint brot hafi átt sér stað. Sagði hann grundvallaratriði málsins vera hvert mat bankans hafi verið á verðmæti Aurum á sínum tíma. Sagði Lárus að saksóknari hafi horft fram hjá fleiri mötum sem gerð voru á verðmæti bréfanna meðan hann hafi séð þau jafnvel verðmætari en kom fram í lánamálinu.

Sagði Lárus málið því í raun fjalla um það hvort þessi ákvörðun hafi skilað því að bankinn væri betur settur tryggingarlega fyrir eða eftir lánveitinguna. Sagðist hann vera þeirrar skoðunar að áhættan hafi verið minni eftir ráðstöfunina en fyrir hana. „Við minnkum ótryggðu stöðuna,“ sagði Lárus seinna við skýrslutöku.

Sagði hann að með þessu hafi ótryggð staða Pálma Haraldssonar, sem var stærsti eigandi Fons, farið úr 4 milljörðum í 1,7 milljarða. Þetta hafi verið hluti af því starfi sem bankinn hafi unnið að á þessu tíma um að draga úr ótryggðum útlánum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert