„Það var pirringur“

Flugvélin fór klukkan sjö í kvöld.
Flugvélin fór klukkan sjö í kvöld. Ljósmynd/WOW

„Ég átti að fara í morgun klukkan rúmlega sex og mætti svona fjögur um nóttina upp á völl. Ég var að tjékka mig inn en þá stóð á miðanum að flugið væri klukkan 12,“ sagði Elísabet Unnur Gísladóttir í samtali við mbl.is.

Hún var þá stödd á Keflavíkurflugvelli í þriðja skiptið í dag en flug hennar til Amsterdam, sem átti að fara í loftið í morgun, fór frá Keflavík klukkan sjö í kvöld. Elísabet kannaði málið í morgun og var þá sagt að fluginu hefði verið tvístrað. „Ég veit ekki hvernig þeir völdu það. Sumir komumst en aðrir ekki.“

Skipta þurfti óvænt um flug­vél fyr­ir flug WOW air til Amster­dam í morg­un með þeim af­leiðing­um að ekki komust all­ir farþegar með flug­inu. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Svan­hvíti Friðriks­dótt­ur, upp­lýs­inga­full­trúa WOW air, þurfti að not­ast við aðra vél sem tók ekki eins marga farþega. 100 farþegar sátu þess vegna eftir með sárt ennið.

Þegar Elísabet mætti aftur á flugvöllinn í hádeginu var búið að fresta því um klukkustund. „Stuttu eftir að ég mætti kom tilkynning um það í kallkerfinu að flugið færi klukkan sjö,“ sagði Elísabet.

Henni þótti furðulegt að farþegar voru ekki látnir vita af seinkuninni í morgun. „Það fannst mér skrýtnast. Þetta hlýtur að hafa komið upp um fjögurleytið.

Maður er eins og lítið peð

Sjálf varð hún ekki vör við mikinn pirring meðal farþega í morgun. „Ég var sjálf pínu svekkt en var einhvern veginn svo þreytt þá. Síðan þegar ég mætti í seinna skiptið um hádegið þá fann ég að margir voru mjög pirraðir. Ég ætlaði að tala við afgreiðsluna en hún var stútfull af brjáluðum ferðamönnum. Ég ákvað frekar að fara í bæinn og koma aftur í kvöld. Það var pirringur, skiljanlega.

Elísabet var á leið í helgarferð og þá er svekkjandi að missa úr heilan dag. „Ég reyni að gera það besta úr þessu. Maður er bara eins og lítið peð í þessu og getur ekki gert neitt. Þangað til eftir á, þá er hægt að kanna málið.

Farþegar geta leitað réttar síns en þeir geta sótt um 400 evrur (50 þúsund íslenskar krónur) í skaðabætur vegna þess að seinkun á flugi var meira en þrjár klukkustundir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert