Þrír fengu enga styrki frá fyrirtækjum

Þingsalur Alþingis. Mynd úr safni. Píratar, Björt framtíð og Vinstri …
Þingsalur Alþingis. Mynd úr safni. Píratar, Björt framtíð og Vinstri hreyfingin - grænt framboð fengu enga styrki frá fyrirtækjum á síðasta ári. mbl.is/Kristinn

Þrír þeirra flokka sem nú eiga sæti á þingi fengu enga styrki frá fyrirtækjum á síðasta ári. Samkvæmt ársreikningum flokkanna fengu Píratar, Björt framtíð og Vinstri hreyfingin - grænt framboð enga styrki frá fyrirtækjum á meðan að Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin fengu samanlagt um 35 milljónir frá fyrirtækjum og voru sjávarútvegsfyrirtækin áberandi meðal styrkgjafa flokkanna.

Framlög einstaklinga, þar með talinn félagsgjöld, námu tæplega 1,4 milljón hjá Pírötum og var ekkert framlaganna hærra en 200.000 kr. Píratar fengu tæpar 19 milljónir úr ríkissjóði og um 1,5 milljón frá Reykjavíkurborg, þar sem flokkurinn er með einn borgarfulltrúa. Flokkurinn var 8 milljónir í plús eftir síðasta ár og stendur því ágætlega að vígi fjárhagslega.

Framlög einstaklinga til Bjartrar framtíðar, m.a. félagsgjöld, námu rúmum 2 milljónum króna samkvæmt ársreikningi og nam ekkert framlaganna yfir 200.000 kr. Þá fékk flokkurinn enga styrki frá fyrirtækjum í fyrra, en framlög frá sveitarfélögum vegna bæjar- og borgarfulltrúa námu 7,3 milljónum og loks fékk flokkurinn 31,3 milljónir úr ríkissjóði.

Líkt og Píratar stendur flokkurinn ágætlega fjárhagslega og nam hagnaður Bjartrar framtíðar á síðasta ári tæpum 18 milljónum.

Samkvæmt ársreikningi Vinstri hreyfingarinnar  - grænt framboð, sem birtur er á vef flokksins, þáði VG heldur enga styrki frá fyrirtækjum. Styrkir og félagsgjöld frá einstaklingum námu hins vegar tæpum 9 milljónum króna og koma m.a. frá núverandi þingmönnum og bæjarfulltrúum flokksins. Framlög frá ríki námu þá um 40 milljónum og frá sveitarfélögum 3,5 milljónum. Óráðstafað eigið fé VG nam rúmum 15 milljónum í árslok.

Sjálfstæðisflokkurinn var sá flokkur sem fékk hvað hæsta styrki frá fyrirtækjum, en samkvæmt árskýrslu fékk flokkurinn um 19 milljónir í styrki frá fyrirtækjum. Styrkir og félagsgjöld frá einstaklingum námu tæpum 30 milljónum, en ekkert framlaganna var yfir 200.000 kr. Flokkurinn fékk ennfremur tæpar 94 milljónir frá ríkinu og tæpar 18 milljónir frá sveitarfélögum. Samkvæmt árskýrslunni var þó tap af rekstrinum á ársgrundvelli upp á tæpar 8 milljónir.

Framsóknarflokkurinn fékk tæplega 87 milljóna framlag frá ríkinu, tæpar 6 milljónir frá sveitarfélögum og rúmar 9 milljónir frá einstaklingum, m.a. vegna félagsgjalda, en ekkert framlaganna var yfir 200.000 kr. Framsókn er sá stjórnmálaflokkur sem fékk næstmestu styrkina frá fyrirtækjum og námu þeir tæpum 11 milljónum króna og svaraði hagnaður flokksins á ársgrundvelli til 19 milljóna.

Samfylkingin hlaut tæpar 5 milljónir í styrk frá fyrirtækjum og rúmar 16 milljónir frá einstaklingum, m.a. vegna félagsgjalda. Framlög frá ríki námu rúmum 48 milljónum og frá sveitarfélögum þáði flokkurinn tæpar 13 milljónir. Hagnaður  Samfylkingarinnar á ársgrundvelli nam því rúmri 21 milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert