Versti stormurinn ókominn

Þó svo að búið sé að vera hvasst í dag er mesti stormurinn ókominn, að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar. Vindurinn mun ná hámarki vestalands seint í kvöld og snemma í nótt og bent er á varasamar aðstæður t.d. á Reykjanesbraut þegar vatn safnast í hjólförum samfara hvassviðri þvert á veginn.

Veðurvefur mbl.is

Ábending veðurfræðings:

„Þó svo að hvasst hafi verið fyrr í dag er samt mesti stormurinn ókominn,  á undan sjálfum kuldaskilum óveðurslægðarinnar.  Hvessir upp úr kl. 18 með S- og SSA-átt. Nær vindur hámarki vestanlands seint í kvöld og snemma í nótt.  23-28 m/s í meðalvindi á Vesturlandi og í nótt einnig norðanlands.  Mjög byljótt verður við þessar aðstæður og hviður allt að 35-45 m/s svo sem á Suðurnesjum, undir Hafnarfjalli og á norðanverðu Snæfellsnesi.  Eins á Vestfjörðum t.d. í Arnardal á milli Síðavíkur og Ísafjarðar (frá kl. 22) og í nótt í vestanverðum Skagafirði, Fljótum og á Öxnadalsheiði.  Þá er bent á að varasamar aðstæður verða  t.d. á Reykjanesbrautinni þegar vatn safnast í hjólför samfara hvassviðri þvert á veginn.“

Uppfært 16:18

Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur íbúa á höfuðborgarsvæðinu að huga að lausamunum og hreinsa frá niðurföllum nú síðdegis þegar veðrið gengur niður í stutta stund. Upp úr klukkan 22.00 í nótt mun veðrið versna að nýju og mun verða leiðinlegt fram undir morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert