3 vélum snúið frá Keflavík vegna veðurs

Leifsstöð. Mynd úr safni. Fjórar vélar lentu ekki í Keflavík …
Leifsstöð. Mynd úr safni. Fjórar vélar lentu ekki í Keflavík í nótt vegna veðurs. mbl.is/ Þorvaldur Örn Kristmundsson

Flugi fjögurra af þeim 14 farþegavélum sem lenda áttu á Keflavíkurflugvelli í nótt var ýmist frestað eða þeim aflýst vegna veðurs en Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir það vera ákvörðun flugfélagsins hvernig þau meta aðstæður.

Flugfélagið Air Berlin ákvað að aflýsa flugi til landsins frá Berlín og vél Wizzair var lent í Osló, en fluginu var síðan haldið áfram til Íslands og lenti vélin í Keflavík skömmu eftir miðnætti.

Þá var tveimur vélum sem áttu að koma frá Tenerife í gærkvöldi lent í Bretlandi. Vél Primera sem var að koma frá Tenerife var lent í Manchester og mun sú vél lenda í Keflavík um hádegisbil. Vél Icelandair  frá Tenerife var snúið við og lenti í Glasgow og verður flugi hennar haldið áfram frá Glasgow um hádegi.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair þá var vélinni annars vegar snúið við vegna veðuraðstæðna og hins vegar vegna minniháttar bilunar í vökvakerfi vélarinnar, sem gerði það að verkum að vélin hefði við þessar aðstæður þurft lengri flugbraut til lendingar en nú eru opnar í Keflavík.

Í svari Icelandair kemur fram að ein braut í Keflavík er nú ekki í fullri lengd vegna viðhalds, en hefði svo verið, þá hefði vélin getað haldið áfram til Íslands í gær.

„Þetta er ákvörðun flugfélagsins á hvernig þau meta aðstæður. Sum flugfélög eru til í að leggja í hann og lenda síðan annars staðar ef veður krefst, en önnur flugfélög eins og Air Berlin eru með strangari reglur,“ sagði Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert