„Ég er orðinn bugaður“

Jón Ásgeir í héraðsdómi
Jón Ásgeir í héraðsdómi mbl.is/Árni Sæberg

Jón Ásgeir Jóhannesson, einn hinna ákærðu í Aurum-holding málinu, gagnrýndi í framsögu sinni við skýrslutöku í dag meðferð ákæruvaldsins og lögregluyfirvalda í sínum málum undanfarin 15 ár, en þá byrjaði rannsókn á Baugsmálinu svokallaða. Sagði hann sömu lögreglumenn hafa rannsakað mál gegn sér núna og gerðu það í Baugsmálinu.

Ásakaði Jón Ásgeir tvo lögreglumenn um að hafa óhikað leynt gögnum sem sýni að ásakanir gegn ákærðu í þessu máli standist ekki. Nefndi hann í því samhengi undirritaða pappíra frá félaginu Damas sem var í viðræðum við Baug um kaup á hlut í Aurum. Þá hefði líka verið gert verðmat af hálfu Damas sem sýndi hærra verðmat en saksóknari leggur upp með í málinu.

Saksóknari telur verðmat Aurum í viðskiptunum hafa verið of hátt og því hafi lánveiting Glitnis í því tilfelli verið allt of há. Er það eitt grundvallaratriði í málinu. Sagði Jón Ásgeir að verðmatið sem Damas hefði látið gera væri upp á 107 milljónir, en það er hærra en það 100 milljóna mat sem Glitnir horfði til við lánveitinguna.

Þá sagði Jón Ásgeir það ólíklegt að saksóknari hafi ekki vitað af tengslum meðdómara þegar málið var rekið í fyrra skipti fyrir héraðsdómi við Ólaf Ólafsson fjárfesti. Spurði hann hvort saksóknari hafi ekki aðgang að Google. Hæstiréttur ógilti eftir fyrra málið sýknudóm vegna ummæla dómarans í garð saksóknara.

Sagði Jón Ásgeir að ef dómsmál saksóknara gangi ekki upp „fær sérstakur bara aðra tilraun“ sem hann sagði byggja á upplognum ástæðum. „Ég get trúað ykkur fyrir því að ég er orðinn bugaður,“ sagði Jón Ásgeir um þessi mál gegn sér.

Ítrekaði hann að gerð hefðu verið verðmöt á virði Aurum og að við lánveitingu hefðu starfsmenn Glitnis farið eftir réttum ferlum. Saksóknari telur í málinu að Jón Ásgeir hafi verið einskonar skuggastjórnandi sem hafi gefið fyrirmæli til stjórnanda Glitnis hvernig átti að haga málum. Jón Ásgeir sagði gögn málsins aftur á móti sýna að svo hafi ekki verið. Annars hefðu starfsmennirnir væntanlega framkvæmt hugmyndir hans, en það hafi ekki verið niðurstaðan. „Frekja og eftirfylgni er ekki glæpur,“ sagði Jón Ásgeir um samskipti sín við starfsmenn bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert