Hefðu mátt vera fleiri mótsgestir

Hrannar frá Flugumýri og Eyrún Ýr Pálsdóttir sigruðu í A-flokki …
Hrannar frá Flugumýri og Eyrún Ýr Pálsdóttir sigruðu í A-flokki gæðinga á Landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal í sumar. mbl.is/ Þórunn

Rúmlega 7.000 gestir voru á Landsmóti hestamanna sem fram fór á Hólum í Hjaltadal í sumar. Af þeim greiddu 6.500 gestir aðgangseyri inn á mótið. Rekstur mótsins er fjórar milljónir króna í mínus, að sögn Lárusar Ástmars Hannessonar, formanns Landssambands hestamanna.

„Það eru þó ekki öll kurl komin til grafar. Ég vona að við komumst á núllið þegar það liggur fyrir,“ segir Lárus. Í þessu samhengi vísar hann til þess að enn á eftir að semja um nokkra kostnaðarliði. Einnig er verið að ræða hvort Landsmót ehf. selji svokallað Landsmóts-app sem var smíðað sérstaklega fyrir Landsmótið á Hólum.    

Landssamband hestamanna (LH) á tvo þriðju í Landsmót ehf. sem hélt Landsmótið og einn þriðji er í eigu Bændasamtaka Íslands.   

Slæm veðurspá og EM

„Veðurspáin var slæm fyrir þessa viku á meðan veðrið var gott annars staðar á landinu og svo setti EM í fótbolta líka strik í reikninginn,“ segir Lárus. Hann segir að vissulega hefði verið stefnt að því að fá fleiri mótsgesti. Lárus bendir á að ef um 500 gestir hefðu komið á Landsmót og greitt fullt verð í hliðinu hefði það skilað hreinum tekjum. Eftir forsölu á miðum inn á Landsmót kostaði helgarpassi 17.900 krónur og vikupassi 21.900 kr. Keppendur greiða fullt verð fyrir miðann. 

„Það sem stendur upp úr er frábært mótssvæði á Hólum. Það kemur til með að nýtast til framtíðar,“ segir Lárus. Hann tekur fram að mikil ánægja var með mótið á Hólum. Þessi ánægja hafi komið í ljós á Landsþingi Landssambands hestamanna sem fór fram um helgina. Á því var meðal annars ákveðið að halda Íslandsmót árið 2017 á Hólum í Hjaltadal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert