Pálmi: Ekki lofað skaðleysi

Pálmi í héraðsdómi í fyrra þegar hann bara vitni í …
Pálmi í héraðsdómi í fyrra þegar hann bara vitni í Stím-málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumkvæðið að Aurum-viðskiptunum kom frá Pálma Haraldssyni, eiganda og framkvæmdastjóra fjárfestingafélagsins Fons, þar sem félagið vildi losa sig við hlut sinn í félaginu. Þetta kom fram í vitnaleiðslu yfir honum í héraðsdómi í dag, á öðrum degi aðalmeðferðar Aurum-málsins.

Neitaði að Jón Ásgeir hefði beitt sér gegn bankanum

Neitaði Pálmi því staðfastlega að Jón Ásgeir Jóhannesson, einn ákærði í málinu og einn af aðaleigendum Glitnis á þeim tíma, hefði beitt sér fyrir lánveitingu vegna viðskiptanna innan bankans eða komið fram fyrir hönd Fons í viðskiptunum. Til orðaskipta kom milli Pálma og saksóknara þegar saksóknari birti endurrit af samtali milli hans og lögmanns hans, sem hafði verið tekið upp.

Í málinu eru Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og starfsmaður bankans ákærðir fyrir umboðssvik í tengslum við lánveitingu til félagsins FS38, dótturfélags Fons, til að kaupa bréf í Aurum af Fons, til að fylla upp í tryggingargöt Pálma hjá Glitni og til ráðstöfunar fyrir Pálma, en 1 milljarður af því rann síðar til Jóns Ásgeirs. Eru Jón Ásgeir og annar fyrrverandi starfsmaður bankans ákærðir fyrir hlutdeild í meintum brotum og er Jón Ásgeir sagður hafa þrýst á stjórnendur bankans að ganga frá málinu í krafti stöðu sinnar.

„Þeir vildu borga sem minnst og ég vildi fá sem mest“

Pálmi sagðist í dag hafa átt frumkvæði að viðskiptunum sem framkvæmdastjóri félagsins. Sagði hann sig og bankann hafa tekið marga slagi. „Þeir vildu borga sem minnst og ég vildi fá sem mest,“ eins og venjan sé í viðskiptum.

Sagðist ekki muna eftir tengingu milli Stíms og Aurum

Saksóknari spurði Pálma út í tengingu Aurum- og Stím-málsins, en hann hefur mikið spurt um það við aðalmeðferð málsins og gefið í skyn að Aurum-viðskiptin séu ákveðin afleiðing af Stím-viðskiptunum þar sem Pálmi hafi fengið til baka það sem hann tapaði í fyrra málinu. Pálmi sagðist ekki muna eftir slíkri tengingu. Þá sagði hann, aðspurður hvort Jón Ásgeir hefði þrýst á að klára málið, að svo hefði ekki verið á þessum tíma.

Saksóknari hefur reynt að sýna fram á að Jón Ásgeir …
Saksóknari hefur reynt að sýna fram á að Jón Ásgeir hafi beitt áhrifum sínum við ákvarðanatöku við lánveitingu vegna Aurum viðskiptanna. mbl.is/Árni Sæberg

Pálmi var spurður af saksóknara um póst sem hann sendi til Jóns Ásgeirs í febrúar 2008, um fimm mánuðum áður en lánveitingin sem ákært er fyrir var gerð. Þar var hann að upplýsa Jón Ásgeir um stöðu mála og að Björn Jóhannesson, ákærði í málinu og viðskiptastjóri Baugs og Fons hjá Glitni, gæti ekki veitt lánið nema Pálmi legði fram tryggingar sem Pálmi sagðist ekki eiga. „Allt er því orðið fast. Sorry en það er aldrei hægt að stóla á þá því þeir eru alltaf að breyta,“ sagði svo Pálmi og átti þar væntanlega við bankann.

Sagði Pálmi að hann hefði sent umræddan póst því hann og Jón Ásgeir væru miklir „partnerar á þessum tíma“. Spurði saksóknari þá hvort hann hefði talið Jón Ásgeir geta unnið málum brautargengi í bankanum í ljósi stöðu sinnar og sagðist Pálmi ekki vita það.

Ekki lofað skaðleysi

Saksóknari spurði Pálma út í póst sem Jón Ásgeir sendi til forstjóra Baugs á þessum tíma þar sem hann sagði: „Á sínum tíma þá keypti PH skuldabréf af félagi sem Glitnir setti upp sem heitir S“ og „PH var lofað að hann yrði ekki fyrir tjóni. Sem nú er staðreynd.“ Merkir PH í þessu tilfelli Pálmi Haraldsson og sagði Pálmi að líklegast væri „S“ þarna Stím. Hann neitaði því hins vegar að hafa verið lofað skaðleysi vegna þeirra viðskipta.

Aftur var Pálmi spurður út í póst sem hann sendi varðandi málið en í þetta skiptið var það með tillögu um hvernig ætti að afgreiða það. Kemur þar fram talan 6 milljarðar sem endaði með að vera upphæð lánsins. Sagðist Pálmi hafa sett töluna fram. „Ég ber ábyrgð á þessari tölu.“ Aftur spurði saksóknari um meinta aðkomu Jóns Ásgeirs. „Hver knúði á um mál Fons innan bankans [Glitnis]?“ Svaraði Pálmi því: „Hann heitir Pálmi Haraldsson.“ Saksóknari spurði þá beint til baka: „En hvað með Jón Ásgeir?“ og svaraði Pálmi því: „Ekki fyrir hönd Fons.“

Ólafur hauksson, saksóknari og aðstoðarmaður hans.
Ólafur hauksson, saksóknari og aðstoðarmaður hans. mbl.is/Árni Sæberg

Gaf ekki leyfi fyrir að Jón Ásgeir fengi yfirlit Fons

Í gær kom fram í málinu að Jón Ásgeir hefði fengið senda tryggingarstöðu Fons við Glitni og spurði saksóknari af hverju Jón Ásgeir væri að fá þetta sent og hvort það hefði verið að beiðni Pálma. Sagði Pálmi þetta ekki hafa verið að sinni beiðni og að hann vissi ekki af hverju skjalið var sent.

Saksóknari vísaði einnig í tölvupóst sem Pálmi sendi á Jón Ásgeir, Lárus Welding og Bjarna þar sem hann sagði ósanngjarnt að Fons ætti eitt að taka á sig „FS38 ævintýrið“. Sagðist hann auðvitað hafa verið hundfúll með tapið sem hann hefði orðið fyrir með Stím, en að hann teldi Fons ekki hafa átt neitt inni hjá Glitni. Aftur spurði saksóknari hvort Jón Ásgeir hefði þrýst á um að klára málið og sagðist Pálmi ekki vita til þess.

Var ráðið gegn því að selja í Aurum

Málið snýst að miklu leyti um verðmat á Aurum sem saksóknari telur hafa verið ofmetið af hálfu bankans en ákærðu telja hafa verið rétt og jafnvel vanmetið. Sagði Pálmi að meðal annars hefði sá einstaklingur sem sá um málefni Aurum fyrir sína hönd ráðlagt honum að selja ekki þar sem bjartari tímar væru framundan vegna nýrrar stjórnar og góðs uppgjörs á fyrri hluta ársins. Þá væri mjög jákvætt ef fjárfestar frá Dubai kæmu inn, en þeir voru eigendur að skartgripakeðju sem gæti myndað samlegðaráhrif.

Brást reiður við upptöku við lögmann

Saksóknari spurði Pálma svo út í samskipti hans og lögmanns hans sem höfðu verið tekin upp. Brást Pálmi reiður við og mótmælti harðlega að verið væri að koma með þessi gögn fyrir dóminn. „Átta og hálft ár frá hruni og þú ert búinn að setja mig í þá stöðu að vera með stöðu sakbornings,“ sagði Pálmi við Ólaf Hauksson saksóknara og bætti við: „Hefur farið á skítugum skónum í húsleitum.“ Sagðist hann vera á leið í skaðabótarmál við saksóknara, enda hefði hann unnið öll mál sem hefðu verið skoðuð gegn sér. Þá sagði hann saksóknara vera að birta gögn sem ríkissaksóknari hefði úrskurðað að héraðssaksóknari ætti að afhenda lögmanni Pálma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert