Sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi

Maðurinn var sýknaður.
Maðurinn var sýknaður. mbl.is

Karlmaður sem ók jeppa á þriggja ára barn með þeim afleiðingum að barnið lést hefur verið sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi. Atvikið átti sér stað við sveitabæ í Biskupsstungum í október á síðasta ári en maðurinn var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi ákærði ökumann jeppans fyrir hegningar- og umferðalagabrot. Hann hefði ekið bifreiðinni „af stað og skamman veg til hægri með ætlaða akstursstefnu [...] án nægjanlegrar aðgæslu með þeim afleiðingum að gangandi vegfarandi, stúlkan B, sem ákærða bar að sýna sérstaka tillitssemi, varð fyrir bifreiðinni og lenti undir henni og hlaut við það svo mikla höfuðáverka að hún lést nær samstundis,“ segir í dóminum.

Þess var krafist að maðurinn yrði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttinda og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Hinn ákærði neitaði sök.

Það var mat dómara að ákæruvaldið hefði ekki fært fram nægilega sönnun fyrir því að umrætt banaslys yrði rakið til gáleysis ákærða þannig að hann yrði sakfelldur fyrir þau brot sem í ákæru greinir.

Samkvæmt því bæri að sýkna manninn af öllum kröfum ákæruvaldsins. Sakarkostnaður, 4,4 milljónir króna, greiðast úr ríkissjóði, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða.

Hægt er að lesa allan dóminn hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert