UngFramsókn á Tinder

SUF hefur sett upp prófíl á stefnumótasmáforritinu Tinder.
SUF hefur sett upp prófíl á stefnumótasmáforritinu Tinder. Skjáskot/Tinderprófíll SUF

Á síðustu dögum hafa einhverjir Tinder-notendur orðið varir við hina 23 ára gömlu UngFramsókn sem virðist vera að leita að ástinni á stefnumótasmáforritinu. Prófíllinn er á vegum Samtaka ungra Framsóknarmanna og segir Páll Marís Pálsson, formaður samtakanna, að þau hafi langað til að prófa að gera eitthvað nýtt. „Það er rosalega mikið af fólki sem notar Tinder. Af hverju ekki bara að prófa þetta?“

Einhverjir kannast kannski við notkun Tinder í auglýsingaskyni en WOW Air hefur til dæmis notað forritið til að ná til mögulegra viðskiptavina á nýjum áfangastöðum. Eins notuðu stuðningsmenn Bernie Sanders smáforritið til að koma honum á framfæri og fóru einhverjir þeirra í notkunarbann vegna þessa. Páll Marís segist ekki vita til þess að Tinder hafi áður verið notað í opinberri kosningabaráttu.

Frétt mbl.is: WOW daðrar og gefur flugmiða

Frétt mbl.is: Nota Tinder fyrir Bernie Sanders

UngFramsókn er sem fyrr segir 23 ára. Segir Páll Marís að tilgangurinn sé að ná til ungra kjósenda. „Aldurinn 23 fannst okkur vera mitt á milli 18 og 35 sem að eru eiginlega skilyrðin inn í ungliðahreyfingu og þess markaðshóps sem við einblínum á.“ Þá eru SUF með Tinder-prófíl fyrir bæði kynin.

Páll Marís segist ekki hafa orðið var við neikvæð viðbrögð. Viðbrögð fólks séu jákvæð bæði í raunheimi og á Tinder. „Fólk er að senda skilaboð til baka. Maður finnur að fólk hefur húmor fyrir þessu.“ Hann segir Samtök ungra Framsóknamanna reyna að eiga sem minnstar samræður á smáforritinu en að þau hvetji þá sem þau „matcha“ við til að nýta lýðræðislegan rétt sinn og kjósa, og til að kynna sér stefnumál flokksins.

Ekki eru þó allir jákvæðir í garð uppátækisins. Til að mynda hefur eitthvað borið á hallmælum á samfélagsmiðlinum Twitter.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert